148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:02]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson er sannarlega í hópi þeirra sem fremst hafa gengið í að vilja hafa uppi varnaðarorð um hagspár og líklega framþróun efnahagsmála á komandi tíð. Hún er auðvitað alltaf háð mikilli óvissu, þetta vitum við. Eitt af því sem við munum auðvitað læra, og ég tel að við höfum kannski þegar lært af þessari umferð við gerð fjármálaáætlunar, er að það þarf í miklu meira mæli en nú er gert að birta og taka mið af ólíkum sviðsmyndum um hugsanlega þróun mála fram á veg. Þetta er afar þýðingarmikið atriði. Ég sé ekki betur en að ábendingum um þetta sé vel tekið í fjármálaáætluninni. Þetta er eitt af því sem fram kemur í áliti fjármálaráðs. Fjármálaráð er ekki bara lögbundinn umsagnaraðili heldur hefur það með sínum umsögnum öðlast hér mikinn sess sem ábyrgur og mjög virtur aðili sem fjallar um þessi mál þar sem ekki verður litið fram hjá ábendingum þess.

Mig langar líka að fara nokkrum orðum um það sem hv. þingmaður nefndi í upphafi máls síns, það að þetta fyrirkomulag sem við erum að berjast gegn, þetta vinnuletjandi kerfi allra þessara skerðinga, sviptir fólk miklum lífsgæðum. Það girðir fyrir að fólk geti í krafti sjálfsbjargarviðleitni sem er það afl sem hefur hjálpað fólki í gegnum tíðina í gegnum árin og aldirnar — þetta afl er lamað fyrir tilstilli þessa kerfis. Þetta er óboðlegt og óhafandi. Burt með þetta, út með þetta og það strax! Það þarf ekki, (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra, að bíða eftir einhverju samþykki frá Öryrkjabandalaginu um að afvikla þetta kerfi. Gerið þetta bara núna og það strax.