148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[10:47]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Sú fjármálaáætlun sem hér hefur litið dagsins ljós veldur vonbrigðum. Undir það hafa tekið hagsmunasamtök launþega og Samtök iðnaðarins, svo eitthvað sé nefnt. Stóru fréttirnar í þeim efnum eru þær að áætlunin færi þeim sem höllum fæti standa í samfélaginu ekki nein gleðitíðindi, þvert á móti. Þeir sem fá hins vegar gleðitíðindin eru vogunarsjóðirnir í Arion banka. Þeir fá skattalækkun upp á 2 milljarða. Nú fagna bónusdrengirnir á Wall Street yfir góðmennsku Vinstri grænna. Ekki 2 milljarðar til eldri borgara, ekki 2 milljarðar til öryrkja, ekki 2 milljarðar í samgöngur. Nei, 2 milljarðar í bónusa til vogunarsjóðanna í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Þjónkun þessarar ríkisstjórnar í garð vogunarsjóðanna tekur út fyrir allan þjófabálk. Fyrst seldu þeir hlutabréf ríkisins á undirverði og nú lækka þeir skattana á þá um 2 milljarða. Næst munu þeir sennilega fella niður stöðugleikaframlögin. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er ríkisstjórn vogunarsjóðanna. Það er réttnefnið.

Hvað hefur eiginlega komið fyrir Vinstri græna? Framsókn rekur síðan bara eins og venjulega að sínum feigðarósi en Sjálfstæðisflokkurinn fær allt sitt fram. Hver er eiginlega hinn raunverulegi forsætisráðherra þessarar ríkisstjórnar? Það hlýtur bara að vera Bjarni Benediktsson. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er þessi forgangsröðun — ekki í þágu öryrkja, ekki í þágu eldri borgara, nei, í þágu vogunarsjóðanna — það sem Vinstri græn standa fyrir?