148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að ræða líklega erfiðasta verkefnið sem þessi ríkisstjórn stendur frammi fyrir, sem reynir líklega hvað mest á hana, sem er ósætti á vinnumarkaði. Fjármálaáætlunin eins og hún hefur verið lögð fram af ríkisstjórninni, eins og henni verður breytt í þinginu og eins og hún verður samþykkt mun ramma inn þá fjármuni eða það sem ríkisstjórnin getur sett í málaflokka þegar kemur að fjárlögum í haust. Það hvernig við vinnum þessa fjármálaáætlun í þinginu þarf að tryggja að við getum brugðist við þeirri óvissu sem við stöndum frammi fyrir. Sú óvissa er m.a. um að ljósmæður fari í verkfall. Lög voru sett á margar aðrar stéttir 2015. Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, greiddi atkvæði gegn því ef ég man rétt, og réttilega. Ég man ekki hvað þetta voru margir stéttir en ég veit hvað það kostaði, a.m.k. varðandi hjúkrunarfræðinga sem lög voru sett á á þeim tíma. Það hefði kostað 4 milljarða að semja við þá eins og var samið við lækna þannig að þeir væru sáttir við sína stöðu. Það kostaði 4 milljarða að semja við lækna á sínum tíma. Helmingi fleiri stöðugildi hefðu kostað 4 milljarða, það hefði kostað 4 milljarða að fá hjúkrunarfræðinga á sama stað. Síðan voru aðrar stéttir líka þarna inni.

Það var svigrúm þá. Við þurfum að passa að það sé svigrúm núna. Við vitum að heilbrigðisstarfsfólkið okkar, hjúkrunarfræðingar og ljósmæður, hefur sagt upp og farið að vinna annars staðar, m.a. hjá flugfélögum, í staðinn fyrir að nota menntun sína í þeim tilgangi sem þau hafa ákveðið að helga líf sitt að öðru leyti vegna þess að þau hafa ekki getað annað. Þetta er alvarlegt ástand. Þetta er líklega það erfiðasta sem forsætisráðherra stendur frammi fyrir.

Spurningin sem ég vil gefa forsætisráðherra tækifæri til að svara er: Hvernig tryggjum við að í þessari fjármálaáætlun sé svigrúm til að bregðast við þessu?