148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kemur í máli hv. þingmanns að það er töluverð áskorun almennt í mönnunarmálunum sem við höfum nú aðeins drepið á hér, það er einfaldlega skortur á heilbrigðisstarfsfólki bæði úti um land og hér á höfuðborgarsvæðinu, og einnig áskoranir sem lúta að blönduðu vinnuframlagi lækna fyrst og fremst, og þá annars vegar það að vinna á tiltekinni stofnun og hins vegar að vera verktakar annars staðar á sama tíma. Við höfum líka heyrt áhyggjur forstjóra Landspítalans sem lúta að því að það sé snúið að fá lækna til að vera í fullu starfi við Landspítalann og það hafi mögulega áhrif á stöðu spítalans að því er varðar vísindastarf og þátttöku í rannsóknum og stöðu spítalans sem háskólasjúkrahúss. Þannig að allt spilar þetta saman.

Ég held að það mikilvægasta í þessu til að byrja með sé einfaldlega að ræða þetta sem part af heildarmyndinni. Ég hef orðið þess áskynja að umræðan um verktöku lækna sé hálfgert feimnismál, að það sé eitthvað sem fólki þyki erfitt að ræða og sérstaklega þegar um það er að ræða að viðkomandi séu jafnvel fastir starfsmenn hjá einni heilbrigðisstofnun en svo verktakar á annarri. Almenningur þarna úti spyr sig: Hvernig má þetta vera og hvernig gerist svona nokkuð og má þetta o.s.frv.? Það er eitt af því sem við þurfum að taka til skoðunar.

Hv. þingmaður spyr hvort við munum sjá þessu öllu saman fyrirkomið í fjármálaáætlun. Það sem við erum að gera núna eru þessir stóru rammar, þessar stóru útlínur kerfisins. Ég hef væntingar um að við náum utan um kerfið með markvissari hætti, en það er mjög brotakennt í dag. Við þurfum að ná betur utan um það. Þannig að fjármálaáætlunin í dag endurspeglar okkar mat á heildarþörf fjármagns inn í kerfið sem við vissulega þurfum að færa til eftir því sem stefnumörkun vindur fram.