148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. En það er bæði gott og fallegt að það kom fram í fyrri ræðu hv. þingmanns að við erum jafn gömul. Það er nú kannski flóknara fyrir mig að standa undir því en fyrir hv. þingmann.

Mig langar að árétta það sem hér kom fram hjá mér áðan, uppbygging þessara hjúkrunarheimila er fullfjármögnuð. Hins vegar varðandi það sem hv. þingmaður segir um flutning á verkefnum til sveitarfélaga og nefndi þessi tilteknu atriði þá er það kannski hluti af skýringunni. Ég hef nú tilhneigingu til að halda að skýringanna sé líka að leita í því að sveitarfélögin telja mörg að ekki sé búið að gera upp með fullnægjandi hætti flutninginn á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga. Auk þess er það orðið svo, sem marka má líka í frumvarpi sem ég mælti fyrir hér í gær eða fyrradag, að vaxandi efasemdir eru í samfélaginu um að aldraðir séu málaflokkur og þar með eigi að flytja þá til sveitarfélaganna með einhvers konar pennastriki stjórnvalda þegar þeir eiga (Forseti hringir.) eitthvert afmæli.

En ég vil gleðjast yfir því að formaður jafnaðarmannaflokks Íslands samgleðjist mér yfir auknum þunga í heilbrigðismál.