148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:57]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Ég bið hv. þingmann afsökunar hafi ég misskilið hann, sem mér heyrist ég hafa gert, þannig að þar með er því komið til skila.

Ég fagna áhuga þingmannsins á því að stofna þjóðgarð á Ströndum. Það er mjög mikilvægt að finna fyrir þeim stuðningi. Líkt og ég sagði áðan hefur svo sem ekki verið tekin nein afstaða til þess í ríkisstjórninni, en hvað varðar Hvalá sjálfa og virkjun hennar er það mál sem er náttúrlega fyrst og fremst í höndum sveitarstjórnarinnar eins og staðan er í dag. Það er komið það langt í því ferli. Hins vegar er stofnun þjóðgarðs ekki í höndum sveitarstjórnarinnar, það væri í höndum framkvæmdarvaldsins og/eða þingsins.

Varðandi meðhöndlun úrgangs er það rétt að hér er sett fram aðgerð um að ráðast í áætlun um það, sem er í vinnslu, hún er stödd hjá Umhverfisstofnun eins og staðan er núna. Þar munu koma inn áherslur úr stjórnarsáttmálanum líkt og hv. þingmaður kom inn á. Ég legg sérstaklega áherslu þar á hringrásarhagkerfið, að við getum notað úrganginn sem auðlind og það er kannski auðveldast í því sambandi að benda á lífræna úrganginn. Þar held ég að við þurfum virkilega að huga að því hvort að við viljum skattleggja urðun á lífrænum úrgangi til þess að hann geti nýst sem sú auðlind sem hann í rauninni er og við hættum að urða lífrænan úrgang. Þetta er bara auðlind á villigötum sem við eigum að nota til áburðar.

Nýsköpun er lykilatriði í þessu, eins og hvað plastið varðar. Við erum að skoða það í ráðuneytinu hvaða leiðir önnur lönd hafa farið varðandi skattlagningu eða bann. Það er misjafnt hvaða árangri þetta virðist vera að skila.

Síðan kom þingmaðurinn inn á endurheimt votlendis og ég styð allar góðar hugmyndir um slíkt og það sem hann nefndi sérstaklega held ég að sé virkilega spennandi og flott verkefni.