148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:28]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Þetta er sannarlega dýrmætt tækifæri til þess að ræða umhverfismálin við hæstv. umhverfisráðherra og ég vil þakka honum fyrir þau svör hann hefur veitt hér í dag. Það er af mörgu að taka, herra forseti, þannig að maður verður að velja úr. Ég ætla að nefna örfá atriði og á von á því að koma hingað aftur.

Í þetta sinn ætla ég að nefna tvennt. Annars vegar ætla ég að nefna fyrirhugaða virkjun í Hvalá. Ég hafði tækifæri til þess að beina óundirbúinni fyrirspurn að hæstv. forsætisráðherra um þetta mál undir þeim formerkjum að þetta er auðvitað stefnumál í hennar ríkisstjórn, þar sem er tekið fram að stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendi landsins. Í stefnuskrá flokks forsætisráðherra og umhverfisráðherra, eftir því sem ég best veit, er kveðið á um stofnun þjóðgarða á miðhálendinu og á hálendi Vestfjarða. Þetta er auðvitað göfug stefna og hana ber að virða og þakka.

Svör ráðherra hér eru mjög of ið sama far og komu fram í svari forsætisráðherra þannig að þau koma mér ekki á óvart. Það er að málið sé í höndum sveitarstjórna á staðnum.

Í þessu máli háttar þannig til að þarna rekast á tvenns konar hagsmunir. Það eru annars vegar hagsmunir náttúruverndar, hér er ósnortið víðerni sem er í stórhættu og ég minni á mjög alvarlegar athugasemdir af hálfu Skipulagsstofnunar, og hins vegar er spurning sem haldið er fram af hálfu þeirra sem vilja virkja þarna um afhendingaröryggi raforku. Ég minni á greinar Snorra Baldurssonar sem ég tel að sé umhverfisráðherra mjög vel kunnur, (Forseti hringir.) þar sem hann bendir á að (Forseti hringir.) einungis 5–10% af raforkuvandamálinu sem þarna er við að eiga myndi leysast með þessari virkjun. Er ráðherra tilbúinn til að beita sér fyrir því (Forseti hringir.) að taka upp viðræður við viðkomandi sveitarstjórn um að unnt verði að friða þessi (Forseti hringir.) víðerni fyrir beltagröfum og jarðýtum sem á að sleppa þarna lausum í nafni ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur?