148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:12]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að 5,5 milljóna átakið er til þriggja ára. Þegar það fellur út þá lækka framlögin, en þau verða þó til samræmis við árið 2018, þ.e. yfirstandandi ár, nokkru hærri en árið 2017 og hærri en nánast allflest ár á síðastliðnum 20 árum. Það er talsvert meira í þennan málaflokk á þessum árum en verið hefur. Ef við horfum 20 ár aftur í tímann gæti meðaltalslína verið einhvers staðar í kringum 17, 18 milljarðar, en sú tala sem er þarna er sennilega í kringum 20 milljarðar, nú man ég hana ekki, er ekki með hana beint fyrir framan mig, tæpir 20, 19,5 eða eitthvað svoleiðis. — Ég er með hana í töflu hérna fyrir framan mig og er að reyna að lesa úr henni.

Ég hef líka sagt hér í dag að það hvarfli ekki að mér að þeir milljarðar sem við erum að fara að bæta í næstu þrjú árin muni duga (Forseti hringir.) til að bæta í götin, svo getum við haldið áfram. Það þarf meira til til að ná tökum á þessu stóra verkefni.