148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hérna held ég að við séum á réttri leið, við séum að setja réttar áherslur og ég held að þetta geti skilað okkur öllum sem hér búum betra samfélagi.

Mig langar að koma inn á annað, en það tengist því að eins og hæstv. ráðherra sagði þá er stór hluti af brottfalli úr framhaldsskólum nemendur sem hafa annað tungumál en íslensku. Brottfallið almennt er eitthvað sem er tekið á í þessari fjármálaáætlun og greinilegt að það er vilji til þess að fara í aðgerðir til þess að efla menntun í landinu.

Það kemur hér fram í töflu að Ísland virðist reyndar standa nokkuð vel miðað við aðrar Norðurlandaþjóðir þegar kemur að því að hér eru ekkert svo sérstaklega margir sem virðast vera óvirkir einstaklingar í samfélaginu vegna brottfalls. Við höfum þó engu að síður mikið talað um óvirkan hóp sem er þá ungt fólk sem lendir inn á örorkulífeyri. Ég veit ekki hvort þessir hópar skarast. Mér finnst líklegt að það sé einhver skörun, en ég veit ekki hvað hún er mikil.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það þurfi ekki að tengja þetta tvennt saman núna þegar við erum að tala um að fara í breytingar á örorkulífeyriskerfinu með aukinni áherslu á til að mynda endurhæfingu, (Forseti hringir.) hvort við verðum ekki að tengja þetta inn í framhaldsfræðsluna og passa okkur (Forseti hringir.) að lenda ekki inn í boxahugsun, heldur að hér verði ólík ráðuneyti að samnýta upplýsingar (Forseti hringir.) og samnýta vinnu sína til að ná utan um þennan hóp.