148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[20:57]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú kannski ekki að svara, ég ætla að bæta aðeins við: Bara einn þáttur í byggðastefnu sem gæti virkað. Listir og menning skipta okkur miklu, eru krydd lífsins. En hvernig við stöndum að stuðningi við listir og menningu er nú kannski alveg með þeim hætti sem við ættum að gera. Við ættum til dæmis að hugleiða það betur. Miðað við úttekt sem gerð var af Fréttatímanum voru listamannalaun árið 2013 nær eingöngu bundin við listamenn sem voru hér í 101. Ef farið hefði verið eftir höfðatölu hefði sex sinnum meira farið til listamanna úti á landi en gerði í raun, sex sinnum hærri fjárhæðir. Upp undir 200 milljónir í staðinn fyrir nokkra tugi.

Ég segi: Heyrðu, eigum við þá ekki að breyta fyrirkomulagi við úthlutun listamannalauna, ef við erum sammála um að við viljum styðja við listir og menningu — ég er einn þeirra — og færa ákvörðun um listamannalaunin heim í hérað. Ef við viljum lofa íbúum hvers byggðarlags að taka ákvörðun um það, t.d. þegar þeir skila skattskýrslunni sinni, með hvaða hætti þeir vilji verja þeim fjármunum sem eyrnamerktir eru til lista og menningar. Ég hygg að margir myndu kannski velja myndlistarmanninn í sinni heimabyggð, leikfélagið o.s.frv. Ætli að þetta yrði nú ekki bara töluvert góð stefna til að jafna muninn og gera það eftirsóknarverðara að búa í hinum dreifðu byggðum; yrði meira krydd í lífið. Ég held að við ættum kannski að vinna að þessari hugmynd. Við getum þróað hana áfram saman hv. þm. Berþór Ólason, sem kinkar hér kolli, þakka þér kærlega fyrir.