148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[22:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024. Eins og ég hef sagt áður í þessum ræðustól þá held ég að þau byggðamál sem eru mikilvægust og skila mestum og varanlegustum árangri séu auðvitað þau að samgöngur séu góðar, fjarskipti séu góð og að afhendingaröryggi rafmagns sé þannig að fyrirtæki geti sett sig niður þar sem þau vilja starfa og hafa aðgang að sem bestu og stöðugustu vinnuafli.

Hvað samgöngurnar varðar, eins og hefur verið endurómað í ræðum hér fyrr í kvöld og hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þekkir manna best, er auðvitað kallað eftir verulegum umbótum í þeim efnum. Það er þetta, ásamt því að fjarskiptin séu í lagi í tengslum við ljósleiðaravæðinguna og annað slíkt, sem skiptir meira máli en allar hinar byggðaaðgerðirnar að ég held. Ég vil því nota þetta tækifæri til að brýna hæstv. samgönguráðherra til að leggja sig fram af alefli til þess að enn meiri skurkur verði gerður í því en nýumrædd fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir til samþykktar hér í þinginu gefur tilefni til að ætla.

Ég varð að bregða mér frá þess og heyrði þess vegna ekki hvort hæstv. samgönguráðherra staðfesti það áðan að byggðaáætlun væri fullfjármögnuð, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson var í pontu og spurði um það. Það væri gott að fá það staðfest hér á eftir.

Ég vil nota tækifærið til þess að hrósa þessu metnaðarfulla plaggi, hér er margt gott og greinilegt að það hefur ekki verið kastað til hendinni. En það sem ég hef áhyggjur af er fjármögnunarhlutinn. Þegar ég les saman fjárlögin sem voru samþykkt hér í desember 2018, núgildandi, þá fjármálaáætlun sem var rædd hér nýlega og er nú til meðferðar í þinginu og síðan þessa tillögu til þingsályktunar, þá virðist í fjármálaáætlun sem er til fimm ára ekki bætt við neinu. Þar er talinn saman liðurinn sveitarstjórnarmál og byggðamál og hann virðist vera nokkurn veginn í stöðugum takti út tímabil fjármálaáætlunar. Mér þykir líklegt að það þýði að framlög til byggðamála séu áætluð á mjög svipuðum nótum og nú er, sem eru 1.916 milljónir fyrir árið 2018.

Í fjárlögum sem voru samþykkt í desember eru þessir fjármunir eyrnamerktir hingað og þangað til ágætra verka og á bls. 238–240 eru tilgreind sérstaklega tíu atriði sem ætlunin er að veita fjármuni til.

Í þessari tillögu um stefnumótandi byggðaáætlun, sem er metnaðarfullt plagg, sýnist mér vera 54 tilgreind atriði í flokkum A, B og C. A er aðgengi að þjónustu, B er tækifæri til atvinnu og C er sjálfbær þróun. Þarna eru þessi tíu atriði sem eru talin upp bæði í fjármálaáætluninni og í fjárlögum orðin 54. Það er það sem fær mig til þess að hafa áhyggjur af því að við séum ekki með fullfjármagnaða áætlun. Ef maður les í gegnum tillöguna þá eru 30 af þessum 54 atriðum eða málum með tilgreinda fjárveitingu, 24 ekki. Það ýtir undir þessar áhyggjur mínar, en ég vona að hæstv. ráðherra slökkvi á þeim ef hann gerir svo vel að svara þessari spurningu úr því að hann er hér í salnum.

Það er margt ágætt í þessari áætlun en ég hef nokkrar áhyggjur af því að þeir sem hana unnu hafi verið helst til bjartsýnir með marga þá þætti sem eru með tilgreinda fjárveitingu. Ef við tökum bara sem dæmi þá er hér í kafla B um tækifæri til atvinnu, liður B.1, þrífösun rafmagns. Þar eru áætlaðar 400 milljónir úr byggðaáætlun á áætlunartímabilinu 2019–2024 sem eru sex ár. Það eru 80 milljónir á ári. Við vitum öll að við förum ekki langt fyrir þá upphæð, bara ef við horfum á þann árangur sem næst með 80 milljónum í ljósleiðaravæðingu, sem er ódýrari aðgerð en þrífösunin. Þetta er annaðhvort undirskot eða menn ætla að raunfjármagna þetta seinna úr öðrum liðum.

Það eru sambærileg atriði sem mig langar til að nefna, aðgangur að geðheilbrigðisþjónustu, þar sem verkefnismarkmið er að styðja við stefnu og aðgerðaáætlun velferðarráðuneytisins í geðheilbrigðismálum. Til þessa verkefnis eru áætlaðar 5 milljónir á þriggja ára tímabili. Þótt viljinn sé örugglega góður þá fer það því miður ekki langt. Sama á við um aðgang að þjónustu sérfræðilækna þar sem verkefnismarkmiðið er að jafna aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Til þessa verkefnis eru áætlaðar 5 millj. kr. úr byggðaáætlun á þriggja ára tímabili, sem eru 400 þús. kr. á mánuði. Þetta ýtir aftur undir þá tilfinningu mína að við séum ekki búin að sjá til lands hvað fjármögnunina varðar.

Ég gæti svo sem farið í gegnum þessi atriði hvert af öðru, en ég held að það bæti engu við umræðuna sem hér hefur átt sér stað. En það eru hér atriði sem er nýbúið að taka afstöðu til. C-flokkurinn er sjálfbær þróun og í lið C.8 er markmiðið að efla staðbundna fjölmiðla, sem eru héraðsfréttablöðin og miðlarnir úti um landið. Ef við gefum okkur bara til einföldunar að það séu þrír miðlar í hverju landsbyggðarkjördæmanna, samanlagt níu, og þarna séu ætlaðar 25 millj. kr. til verkefnisins á árunum 2018–2024, þá eru það 32 þús. kr. á mánuði til hvers miðils. Það vitum við öll sem hér störfum að það gerir ekki mikið fyrir hvern og einn þeirra þótt allt sé gott auðvitað. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta sérstaklega er að það er nýbúið að fella hér tillögu um stuðning til handa prentmiðlum sérstaklega sem fjallaði um að gera þá þjónustu virðisaukaskattslausa. Hún var felld í desember í tengslum við afgreiðslu fjárlaga. Þannig að mér þykir eitt og annað í þessu rekast á, það fari ekki saman hljóð og mynd.

Að öðru leyti vil ég enda á að segja að hér er margt gott og það er vel til þess vinnandi að reyna að ná sátt og samkomulagi um það að ná þessum verkum sem flestum til framkvæmda með áherslu á samgöngur og fjarskipti og örugga dreifing rafmagns. Það eru atriðin sem þurfa að vera fremst í röðinni ásamt því auðvitað að íbúar landsbyggðarinnar hafi forsvaranlegt og gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu og góðri menntun. Ég legg til að við einhendum okkur í það. Ég vona að ég sé að misskilja fjármögnunarhlutann í þessu og hæstv. ráðherra staðfestir það þá við mig hér á eftir, en ef upp á fjármögnunina vantar þá þurfum við að ganga til þess verks að leysa það.