148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Haukur Hilmarsson, aðgerðasinni og baráttumaður fyrir jafnrétti og frelsi og gegn auðræði og kúgun, hefur verið týndur frá því í byrjun febrúar. Þá bárust fregnir af því að hann væri talinn af eftir innrás tyrkneska hersins í Afrin í Sýrlandi. Þar hafði Haukur gengið til liðs við kúrdískar baráttusveitir, en Kúrdar hafa verið ofsóttir um árabil af einræðisstjórnum í Írak, Sýrlandi og nú síðast Tyrklandi. Þær sveitir sem Haukur barðist með lögðu sitt af mörkum í stríðinu við þær ógnarsveitir sem hafa kennt sig við íslamskt ríki.

Þetta var í febrúar. Síðan hafa fjölskylda Hauks og vinir ekki fengið að vita fyrir víst um afdrif hans. Við Íslendingar erum þjóð sjómanna og ég held að við getum flest gert okkur í hugarlund hvernig það er þegar ástvinur er týndur og talinn af en staðfesting berst ekki og ekki er hægt að kveðja, örlítil vonartýra kemur í veg fyrir að sárin nái að gróa. Á meðan enn ekki koma fram óyggjandi upplýsingar um afdrif Hauks og meðan jarðneskar leifar hans koma ekki fram eða eru afhentar er sá möguleiki alltaf fyrir hendi að hann sé á lífi, jafnvel í haldi tyrkneskra stjórnvalda.

Í gær birtist opið bréf sem 400 manns hafa sent Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þar koma fram athugasemdir við að rannsókn hafi gengið allt of hægt, fjölskylda Hauks hafi fengið upplýsingar seint og illa, stjórnvöld hafi ekki beitt sér af fullum þunga gagnvart stjórninni í Tyrklandi, sem er bandamaður íslenskra stjórnvalda í NATO.

Virðulegi forseti. Ofan á sorg og sár ástvina má ekki bætast sú tilfinning (Forseti hringir.) að stjórnvöld standi ekki heils hugar með þeim.