148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki áhyggjur af því að það sé verið að losa tökin á þeim aflaheimildum sem eru til ráðstöfunar innan 5,3% hlutdeildarinnar. Það hafa margar breytingar orðið á sjávarútvegi undanfarin ár og hefur orðið samdráttur í línuívilnun vegna þess að það hefur dregið úr því að beitning sé í landi. Svona kerfi er alltaf lifandi og þarf að endurskoða. Það hefur verið endurskoðað undanfarið varðandi sérstaka byggðakvóta sem hafa nýst mjög vel. Ég hef verið í atvinnuveganefnd eða sjávarútvegsnefnd alveg frá upphafi, frá því að ég kom inn á þing. Þar höfum við stöðugt verið að tala um að endurskoða hvernig þessar heimildir innan 5,3% hlutans nýtast sem best fyrir byggðirnar, byggðafestu og nýliðun. Ég tel að strandveiðar séu hluti af því púsli öllu saman sem styðji mjög vel við annað sem er í því kerfi og sé ekki að taka af neinu öðru.