148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

framtíð og fyrirkomulag utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga.

[15:51]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, þessa umræðu. Eins þakka ég hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er rétt, sem kom fram í máli hv. þingmanns, að það hefur verið að gerast á undanförnum misserum að þjónusta er veitt á færri stöðum í hinum dreifðu byggðum. Slíka stefnubreytingu má rekja aftur í tímann; þetta hefur verið að þróast og gerast í nokkrum áföngum, m.a. með sameiningu heilbrigðisstofnana. Þetta hefur verið að þróast í þá stöðu sem hv. þingmaður lýsir sem leiðir til aukinnar sérhæfingar og þjónustu á færri stöðum en áður.

Ef prýðisríkisfjármálaáætlun er rýnd kemur fram að umtalsvert mikið fjármagn fer á málefnasviðið í heild sinni. Ef skoðuð er breyting frá ríkisreikningi 2016 til áætlunar 2019 er aukningin til þessa sviðs 28,4%. Málefnasviðið tekur til sín þó nokkuð mikla aukningu, verður að teljast. Sjúkraflutningar taka hins vegar til sín um 5,5% af heildarfjármagninu og það er væntanlega ekki sanngjarn samanburður þar sem veruleg heildaraukning er til málefnasviðsins og átaks í heilsugæslu. Ég fagna því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra, um að færa sérhæfða þjónustu til íbúanna og draga þannig úr álagi á flutninga, ég held að það sé mjög vænleg leið, og jafnframt að fara í heildarendurskoðun á skipulagi sjúkraflutninga sem kemur jafnframt fram í ríkisfjármálaáætlun 2019–2023.