148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

framtíð og fyrirkomulag utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga.

[15:57]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, fyrir að hefja máls á þessu brýna hagsmunamáli landsbyggðarinnar, myndi ég allra helst telja. Við þekkjum það sem höfum búið úti á landi hvað það er mikilvægt að geta leitað til læknis hratt og örugglega og að það komi hjálp skjótt, hún sé fagleg og fólki sé komið undir réttar hendur sem allra fyrst.

Ég fagna því auðvitað að það eigi að endurnýja og fjölga þyrlum Landhelgisgæslunnar og tel það mjög mikilvægt, en varðandi sjúkraflutningana sjálfa hefur náttúrlega verið mjög mikið álag undanfarin ár á sjúkraflutningamenn í landinu eftir þessa gífurlegu aukningu ferðamanna. Það er mikilvægt að samið sé við þessa stétt manna, sjúkraflutningamenn, og það sé í samvinnu við stjórnvöld. Nú síðast voru í Húnavatnssýslum áhöld um það hvort þeir legðu niður störf. Það er náttúrlega ótækt og það verður að koma þessum málaflokki í almennilegt horf. Ég tek undir með hv. málshefjanda þegar hann kallar eftir heildstæðri umgjörð og stefnumörkun í málaflokknum. Ég tek undir með honum þar.

Ég set spurningarmerki við það að Landsbjörg taki þátt í sjúkraflutningum og hvort eigi að fara að spara eitthvað með því að láta hana hlaupa í skarðið eins og oft vill verða. Ég set stórt spurningarmerki við það. Ég kalla eftir því að þetta verði faglega gert og ekki slakað neitt á kröfum um menntun eða þjálfun.

Svo vil ég að lokum benda á að það þarf auðvitað að þétta net sjúkrabifreiða og sjúkrahjálpar um allt landið. Það er stundum mjög mikil bið eftir þessari þjónustu. Ef maður lendir t.d. í slysi á Skeiðarársandi (Forseti hringir.) getur hann þurft að bíða í tvo tíma eins og ég varð vitni að fyrir tveimur, þremur árum.