148. löggjafarþing — 56. fundur,  26. apr. 2018.

stefna í flugmálum og öryggi flugvalla.

[10:51]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra svörin. Það er svo að það er rétt sem komið hefur fram hér, flugið hefur vaxið gríðarlega og ekki má gleyma því að þetta snýst ekki eingöngu um hin íslensku flugfélög. Um 25% allrar flugumferðar yfir Atlantshafið fara um hið íslenska loftstjórnarrými og sú umferð sem þar fer um notar flugvelli okkar Íslendinga sem varaflugvelli. Við megum ekki gleyma því að þeir flugvellir þurfa að mæta öllum sömu kröfum og þeir flugvellir sem við förum frá og förum til eins og þeir vellir gera.

Því er afar mikilvægt að þessir vellir séu í stakk búnir til að taka við fleiri en einni eða tveimur vélum. Milljónir mannslífa eru í húfi og ég vona að við förum ekki að líta þann dag að við þurfum að biðjast afsökunar á því að farið hafi niður hundruð manns vegna þess að ekki var hægt að lenda á flugvelli, vegna þess að ekki var hægt að koma flugvél út af braut, vegna þess að (Forseti hringir.) flughlöð voru ekki til staðar, akbrautir voru ekki til staðar, flugumferðarstjórn var ekki til staðar og tækjabúnaður á velli var ekki til staðar.