148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[14:53]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Auðvitað líður mér mun skár að vita að hv. þm. Smári McCarthy hafi reiknað þetta. Ég veit að hann er vandvirkur og lætur ekki teyma sig nema hann sé sjálfur sannfærður og auðvitað líður mér betur að vita það.

Ég er einfaldlega að vitna í tölur í fylgiskjali með frumvarpinu frá nefndinni sjálfri þar sem stendur í töflu 1: „Áætlaður afli strandveiðibáta miðað við 48 daga“. Þetta er bara það sem ég miða við. Þarna sést að u.þ.b. 50% af aflanum lenda á svæði A. Ef þetta hefur breyst í meðförum nefndarinnar, eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson sýndi mér hér fyrir augnabliki síðan, er það í sjálfu sér annað mál.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan, ég sakna þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra taki ekki þátt í umræðunni, hvorki nú né í 1. umr. eða 2. umr. Ég sakna þess að hann sannfæri okkur, sem erum auðvitað í óvissu með ýmislegt í þessu frumvarpi, um hvað hann muni gera í sumar þegar kemur hugsanlega að því að stöðva veiðarnar.