148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[17:30]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki með endanleg svör á þessari stundu. Ég geri ráð fyrir því að nefnd sem tekur við þessu hérna á Alþingi myndi finna út úr því og sér í lagi þegar fleiri umsagnir fara að berast, sem ég hlakka mikið til að lesa og geri fastlega ráð fyrir að komi frá hinum ýmsu sveitarfélögum og vissulega frá Reykjavíkurborg.

Almennt séð litið til eignarréttarins þá myndi ég halda í fljótu bragði, með fyrirvara um að ég er nú bara þingmaður en ekki lögfræðingur, að sveitarfélögin gætu í sjálfu sér veitt þessar lóðir ef þau svo kysu. Nú þekki ég hreinlega ekki hvort sveitarfélög þurfi einhverja sérstaka lagaheimild til þess að gefa lóðir undir tiltekna starfsemi. Ég bara veit það ekki. Ég geri ráð fyrir að nefndin komist að því. Aftur á móti er ég sjálfur einarður talsmaður þess að sveitarfélögin eigi að ráða sér sjálf sem mest og það sem mér finnst í raun og veru verst þegar ég les þessi lög er að sveitarfélögum sé skylt að gera þetta.

Grundvallaratriðið á bak við þetta frumvarp er jafnræði fyrir lögum. Sveitarfélag getur ákveðið að setja ákveðna lóð undir eitthvað tiltekið íþróttafélag sem dæmi eða undir tiltekna listsköpun, segjum tónlist frekar en myndlist eða hvaðeina. Það þarf allt að byggja á málefnalegum sjónarmiðum svo framarlega sem það byggir ekki á mismunun á grundvelli trúarbragða, svo fremi sem það byggir ekki á mismunun sem væri ólögleg samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar. En við erum líka með 62. gr. stjórnarskrárinnar, þjóðkirkjuákvæðið, sem heimilar upp að einhverju marki, samkvæmt minni túlkun, mismunun á grundvelli trúarskoðana.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns þá myndi ég gera ráð fyrir því í fljótu bragði að sveitarfélög þyrftu að finna út úr því sjálf hvernig þau færu með beiðnir sem þegar hefðu borist. Ég myndi samt sjálfur líta þannig (Forseti hringir.) á að skyldan væri fallin niður þegar lögunum (Forseti hringir.) væri breytt, sveitarfélögum væri ekki lengur skylt að verða við þeim beiðnum. En eins og ég segi, það er eitthvað sem kemur betur í ljós í nefndarstörfum eftir 1. umr.