148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

hvítbók um fjármálakerfið.

[16:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Hvernig bankar eru bankar fyrir fólk og venjuleg fyrirtæki? Í hvaða átt mun tæknin færa bankakerfið og hversu mikið munu stjórnvöld hafa um það að segja? Nýrri tilskipun Evrópusambandsins um breytingar á bankakerfinu, sem innleidd verður hér á landi innan skamms, hefur verið líkt við breytingar sem urðu á fjarskiptamarkaði fyrir 20 árum. Stjórnvöld verða að tryggja að neytendur hagnist með breytingunum og þjónustan batni.

Ræða hagfræðingsins Johns Kays á fundi Samfylkingarinnar, sem haldinn var í apríl 2016, og bók hans, Other People´s Money, sem gefin var út 2015, eiga sannarlega erindi við okkur í umræðuna um framtíðarskipan fjármálakerfisins á Íslandi. Nú, þegar ríkið er með mestallt fjármálakerfið í fanginu, er tækifærið til að breyta því þannig að það þjóni samfélaginu en ekki mest sjálfu sér.

John Kay bendir á í bók sinni að bankar úti um allan heim séu aðallega að skipta hver við annan. Í stað traustra fjárfestinga séu þeir að leggja undir, veðja og taka áhættu, sem skellur á almenningi ef illa fer, eins og dæmin sanna. Ég tek undir með John Kay sem vill að bankarnir sjái um greiðslumiðlun, haldi utan um fjármál fólks frá vöggu til grafar, ávaxti sparnaðinn og lágmarki áhættu. Við eigum að einbeita okkur að uppbyggingu kerfisins, starfseminni og þörfum viðskiptavinanna og aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi þannig að innlán verði ekki notuð í áhættusamar fjárfestingar.

Ég mæli með því að við lítum til Johns Kays og þess sem hann leggur til um bankakerfi, sem tekur mið af neytendavernd, og að hægt verði að ganga að sem sjálfsagðri þjónustu við almenning þegar við tökum til við að sníða okkur bankakerfi sem hentar íslensku samfélagi.