148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

hvítbók um fjármálakerfið.

[16:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér þykir ágætt að fá fram hvítbók með einhvers konar samantekt um þau atriði sem skipta máli í íslenskri umræðu um hagkerfi okkar og framvindu þess. Það er prýðilegt í sjálfu sér. Hins vegar held ég, eins og kannski sumir sem hafa talað á undan mér, að þungamiðja umræðunnar krefjist í raun og veru ekki hvítbókar til að við tölum eitthvað meira um hana. Eins og hv. þm. Smári McCarthy nefndi áðan er stundum talað um þríhyrning ómöguleikans sem er reyndar nefndur ýmsum nöfnum, en það eru þrír hlutir, sjálfstæð peningastefna sem stjórnvöld hafa ákveðið að hafa, frjálst flæði fjármagns sem yfirvöld stefna að og þykir sjálfsagt í fjármálaheiminum hér sem annars staðar og í þriðja lagi stöðugt gengi. Við getum bara fengið tvo af þessum þremur hlutum.

Ef við ákveðum að hafa sjálfstæða peningastefnu eins og yfirvöld hafa ákveðið og ef við ætlum að hafa frjálst flæði fjármagns þýðir það óstöðugt gengi með líkunum 100%. Það verður þannig.

Það er hægt að blanda þessu einhvern veginn saman. Það er hægt að hafa svolítið frjálst flæði eða svolítið sjálfstæða peningastefnu eða hvaðeina en eftir stendur hinn þungi sannleikur og við honum þurfum við að bregðast.

Sumir eru þeirrar skoðunar að við eigum að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Það er ein leið. Það myndi hjálpa til með sumt af þessu, en það þýddi fórn á sjálfstæðri peningastefnu. Það eru umræður sem við þekkjum og þurfum ekki hvítbók í sjálfu sér til að ræða.

Gefum okkur að framtíðin sé svona: Við ætlum að hafa hérna íslenska krónu, sjálfstæða peningastefnu og frjálst flæði fjármagns. Þá er eftirstandandi spurningin um stöðugleika krónunnar: Hvernig getur íslenskur almenningur búið við óstöðugt gengi til lengri tíma? Að mínu mati er bara ein leið til þess og ég er ekki viss um að hún virki, ég vona það, en hún er sú að vit á fjármálum yrði einhvers konar sérstök íslensk þjóðaríþrótt á sama hátt og Finnar hafa hokkí og Þjóðverjar hafa bjór. (Forseti hringir.) Ef við komumst ekki þangað held ég að við verðum að horfast í augu við það að sjálfstæð peningastefna muni alltaf valda óstöðugleika á Íslandi.