148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

hvítbók um fjármálakerfið.

[16:48]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Þorsteini Víglundssyni, fyrir að hefja máls á þessu brýna efni. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er boðuð útkoma hvítbókar um fjármálakerfið í landinu sem verði lögð fyrir Alþingi áður en stefnumarkandi ákvarðanir verða teknar um fjármálakerfið. Það stendur líka í stjórnarsáttmálanum að vilji ríkisstjórnarinnar sé að traust almennings á fjármálalífinu verði eflt.

Hvað þarf þá að standa í þessari hvítbók? Við rekum í þessu litla landi allt of stórt og allt of dýrt bankakerfi. Í fyrsta lagi þarf í hvítbókinni að koma fram hvernig tekið verði á verðtryggingunni, hvernig hún verði aflögð eftir nær 40 ára göngu þjóðarinnar með hana á bakinu og reistar girðingar við eyðingarmætti verðtryggingarinnar gagnvart heimilum landsins.

Í öðru lagi tel ég að þar eigi að taka á því hvernig fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi verði aðskildar og áhættusækni fjárfestingarbankanna skorin frá innlánum almennings.

Í þriðja lagi tel ég að í þessari hvítbók eigi að koma fram hvernig og hvenær ríkið hyggst selja eignarhlut sinn í bönkunum, hversu mikið og til hverra. Til ábyrgra aðila en ekki einhverra pappírspésa.

Í fjórða lagi tel ég að í hvítbókinni eigi að koma fram hvernig skuli hátta eftirliti með bankastarfseminni. Að eftirlitið verði nægilega burðugt svo að komið verði í veg fyrir að áhættusækni skapi kerfisáhættu þannig að innviðum fjármálakerfisins, efnahagskerfi landsins, almenningi allur og jafnvel fullveldi landsins sé ekki hætta búin.