148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kjör ljósmæðra.

[11:22]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni, fyrir þessa umræðu um kjör ljósmæðra og hæstv. ráðherra heilbrigðismála, Svandísi Svavarsdóttur, fyrir að mæta hér til andsvara og umræðu um þetta mál. Ég skal alveg viðurkenna, mitt í jafn harðri deilu og hefur teiknast upp á milli samningsaðila, að mér finnst erfitt í miðjum klíðum og kjaraviðræðum að ræða málið hér. Það breytir hins vegar ekki því eins og hefur komið fram í þessari umræðu að það er vilji allra að úr leysist farsællega. Mikilvægi starfa ljósmæðra er óumdeilt sem og hversu mikilvægt það er að um semjist.

Ég vil svo segja að ég hef fullt umburðarlyndi fyrir því sjónarmiði að stétt ljósmæðra njóti jafnræðis og sanngirni í samræmi við námslengd og laun á við aðrar stéttir. Ég tek undir með orðum hæstv. ráðherra, það er brýnt að lyfta kjörum ljósmæðra sem og annarra kvennastétta. Sá pólitíski vilji er til staðar, trúi ég, hjá öllum á vettvangi og sem taka þátt í þessari umræðu.

Sú staða sem uppi er í samningum við ljósmæður dregur ekkert úr þeirri staðreynd að hæstv. ríkisstjórn vill vinna áfram að því að draga úr og eyða kynbundnum launamun. Hæstv. ríkisstjórn hefur sannarlega sett heilbrigðiskerfið í öndvegi. Hvort tveggja var kirfilega sett fram í stjórnarsáttmála. Sá forgangur var þegar staðfestur í fjárlögum 2018 og með auknum útgjöldum til heilbrigðismála í þeirri fimm ára ríkisfjármálaáætlun sem nú er til umfjöllunar í þinginu.

Ég treysti samningsaðilum til að meta stöðuna vel sem uppi er og ná samningum í þessu máli.