148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kjör ljósmæðra.

[11:25]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir að koma með þessa sérstöku umræðu og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að vera hér með okkur í dag og svara.

Ég ætla að nálgast umræðuna pínulítið öðruvísi. Ég ætla að nálgast hana á mannlegu nótunum sem lýtur að því hvar við værum stödd án ljósmæðra. Hvað ætli séu margir á Íslandi sem fengið hafa hendur móður sinnar utan um sig áður en hendur ljósmóðurinnar tóku á móti? Bara um leið og við komum í heiminn eru það þessar hendur, hendur ljósmæðranna, sem taka okkur í fangið. Ég sem móðir er ekki vön að tala um mig persónulega. Ég á fjögur börn. Það tekur mislangan tíma fyrir okkur að koma börnunum okkar í heiminn og taka við gimsteinunum okkar, en það breytir ekki þeirri staðreynd að allan þann tíma meðan við erum að fæða börnin okkar er við hliðina á okkur ljósmóðir sem styður okkur, sem talar fallega til okkar, sem hvetur okkur til dáða og segir okkur alltaf: Þetta er alveg að verða búið. Mikið ofsalega ertu dugleg.

Af hverju erum við svona neikvæð í garð ljósmæðra hvað það varðar að styðja við þær og veita þeim þær kjarabætur sem þær eiga rétt á? Mikið afskaplega voru kaldar kveðjurnar sem hæstv. fjármálaráðherra sendi þeim í gær þar sem hann sagði að þær ættu að gjöra svo vel að vinna sína yfirvinnu vegna þess að annað væri lögbrot.

Ég segi: Semjum við ljósmæður og sýnum þeim virðingu með því að virða verkin þeirra, því að án þeirra værum við í vondum málum.