148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

tollasamningur ESB og Íslands um landbúnaðarvörur.

[13:39]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda frumkvæðið að þeirri umræðu sem hér á sér stað. Við höfum skipst aðeins á skoðunum um þetta mál í óundirbúnum fyrirspurnum sem gefa ekki tækifæri til mjög djúprar umræðu. Það er því ánægjuefni að við séum þó komin á þann stað að við séum að ræða þetta sérstaklega þótt ég sé ekki aðili að þeirri samningsgerð sem hv. þingmaður harmar svo mjög að skuli liggja fyrir. Þetta er eins og kom fram í máli hans samningur sem unnið var að alllengi. Samningsgerðin hófst, m.a. af hálfu íslenskra stjórnvalda, árið 2012, ekki að frumkvæði stjórnvalda heldur að frumkvæði sláturleyfishafa og samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði um aukinn markaðsaðgang til Evrópu. Stjórnvöld lögðu upp í þá vegferð með samfélaginu og endar hún á þann veg að 17. september árið 2015 er þessi samningur gerður. Að sjálfsögðu voru skoðanir skiptar eins og eðlilegt er þegar tekist er á um stór hagsmunamál.

Það tók tíma að koma þessum samningi til enda, þrjú til fjögur ár. Af því að hér var spurt hvort möguleiki sé á því að segja honum upp þá er það örugglega, vegna breyttra forsendna eins og ég skildi hv. þingmann. Hann er þá að vísa til þess að Bretland er í útgönguviðræðum við Evrópusambandið. Ég held að ég geti fullyrt að Bretar sjá ekki einu sinni fyrir endann á því samtali og þaðan af síður Evrópusambandið og hvað þá við Íslendingar sem sitjum ekki einu sinni á hliðarlínunni þar. Við fylgjumst með því sem þar er að gerast en ég held að það sé svolítið snemmt að spá fyrir um það hvernig við getum tekið upp slíka samninga við Breta.

Hér er spurt hvort ég hafi ekki áhyggjur af áhrifum samningsins fyrir íslenskan landbúnað. Ég vil nefna það, og held að ágætt sé að hafa það á hreinu, að samkvæmt þessum samningi voru felldir niður tollar á rúmlega 340 tollskrárnúmerum, lækkaðir á 23. Af þessum 340 númerum báru þá þegar 244 númer engan toll. Þetta hafði því engin áhrif á þann stabba. Með samningnum skuldbatt Ísland sig hins vegar til að halda þessum 244 númerum áfram í núlltolli. Af hinum 100 númerunum sem eftir standa er um að ræða unnar landbúnaðarvörur svokallaðar og stærstu flokkarnir þar eru pítsur, pasta, súkkulaði, bökunarvörur, kökur, brauð, kex, súpur o.s.frv. Innihaldið að þessu leyti til virðist ekki hafa mjög mikil áhrif á okkur. En það sem er að gerast, og hefur gerst, er ört vaxandi innflutningur á kjöti. Við flytjum t.d. inn á árinu 2017 3.600–3.700 tonn af nauta-, svína- og alifuglakjöti þrátt fyrir að kvótinn sé ekki nema 778 tonn. Eftirspurninni innan lands er mætt með innflutningi á kjöti t.d. á fullum tollum. Það er umhugsunar virði, bæði fyrir okkur sem hér stöndum og ekki síður bændur. Ég veit til þess að bændur sjá í þessu tækifæri til að auka framleiðslu sína innan lands og hækka jafnvel verð ef því er að skipta.

Þegar það er síðan fullyrt hér að ekki hafi verið gripið til mótvægisaðgerða af hálfu ríkisins, á grundvelli þeirra tillagna sem landbúnaðarráðherra bárust 2016, þá er það rangt. Það voru átta tillögur í þessum pakka. Tvær eru komnar til fullra framkvæmda. Verið er að vinna á fullu gasi í þremur þeirra og þá standa væntanlega þrjár út af. Það er sú staða sem uppi er varðandi þessar átta tillögur þegar fullyrt er að ekki hafi verið gripið til neinna mótvægisaðgerða. Þetta er staðan í þeim efnum. Ekki að fullu lokið, það skal alveg viðurkennt, og ég leyfi mér að fullyrða að þær munu ekki allar komast til framkvæmda. (Forseti hringir.) En ég mótmæli því þegar því er haldið fram að ekkert hafi verið unnið í þeim. Það er einfaldlega ekki rétt. (Forseti hringir.) Það er miður ef umræðan er tekin á slíkum forsendum.