148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[16:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst þetta ákaflega áhugavert málefni og sérstaklega þegar við pólitískir andstæðingar svokallaðir fáum að rökræða aðeins um það. Ég ætla svo sem ekki að endurtaka það sem ég sagði í minni fyrri ræðu en í umræðunum hefur komið ýmislegt fram sem mig langar til að koma inn á.

Það er eitt sem ég tek eftir við þessa umræðu. Mér finnst áberandi hvernig skoðanir eru stundum gerðar að spurningum um innræti og persónueinkenni annarra. Þá er talað um hluti eins og kjark, nauðhyggju eins og annar hv. þingmaður nefndi áðan, hugmyndaskort og svo fara hv. þingmenn í keppni í umhyggju fyrir neytendum og líta á þetta sem mikið baráttumál, eins og hér takist á hagsmunir.

Fyrir mér er þetta ekki svo einfalt. Fyrir mér snýst þetta um upplýstar og réttar ákvarðanir út frá gefnum forsendum. Ég nálgast það ávallt út frá almannahag og sér í lagi þeim tekjulægstu. Ef mér væri sama um þann hóp, þá væri ég allt annarrar skoðunar en ég er. Mér finnst alltaf þægilegast sjálfum að nálgast þetta málefni og önnur tengd á grundvelli staðreynda og að við séum reiðubúin til þess að endurskoða málið með hliðsjón af staðreyndum og sér í lagi að við áttum okkur á því um hvaða staðreyndir við erum sammála, sem er fáránlegt orð í því sambandi, sumar staðreyndir eru þess eðlis að það er ekki hægt að vera ósammála um þær.

Efnahagsmál eru nefnilega í eðli sínu ekkert einföld. Það er ekkert augljóst hvaða hæstv. doktor í hagfræði hefur rétt fyrir sér og við eigum ekki að láta eins og þetta sé augljóst. Það er það ekki. Það er ekki augljóst hvort við eigum að taka mið af árinu 1989 þegar við berum saman vísitölur neysluverðs með og án húsnæðisliðar eða árið 2008. Mér finnst skynsamlegra í samanburði að nota alla vega árin eftir aldamót og hrunsárin vegna þess að þau eru nýliðin í mínu minni og væntanlega þjóðarinnar vegna hrunsins og góðærisins svokallaða þar áður, þ.e. lánafyllirísins. Það er ekkert endilega rétt forsenda. Það er forsenda sem gengur út frá ákveðnum hópi í ákveðnum aðstæðum og því að við viljum hafa reglurnar þannig að hann þjóni ákveðnum hópi á ákveðinn hátt, nefnilega þeim sem áttu um hvað sárast að binda í hruninu og rétt á eftir. Þannig lít ég á það. Það er af þeirri ástæðu sem mér líst t.d. í fljótu bragði ekki á það að hafa ekki húsnæðisliðinn með í vísitölunni vegna þess að ég fæ ekki betur séð, samkvæmt þeim tölulegu gögnum sem mér skilst að séu staðreyndir, en að í þeim kringumstæðum hefði það verið verra fyrir verst setta hópinn á þeim tíma þegar hann þurfti akkúrat ekki á meiri ógöngum að halda.

Núna erum við á toppi hagsveiflunnar og þess vegna finnst mér alla vega alls ekki að við eigum að setja reglurnar út frá því hvað henti fólki núna ef viðmiðið er hvað hentaði fólki við miklu verri aðstæður. Þetta er gildisspurning. Hún er algjörlega heiðarleg, hún er algjörlega ærleg. Það er ekkert í henni sem felur í sér nauðhyggju eða kjarkleysi eða neitt slíkt. Ég nefni þetta vegna þess að stundum fæ ég hroll þegar ég hlusta á stjórnmálamenn tala um kjark. Mér finnst það oft ekki það sem við þurfum á að halda heldur miklu frekar að við höfum sameiginlegan skilning á því hverjar staðreyndirnar eru, hvert samspil þeirra er og út frá hvaða forsendum við reynum að leysa hvert mál.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að hérna höfum við auðvitað óhjákvæmilega farið út í umræðuna um íslensku krónuna blessuðu, sem heitir á svona hagfræðimáli, ef ég skil rétt, sjálfstæð peningastefna, þ.e. að við séum með okkar eigin mynt og ráðum vaxtastiginu, höfum Seðlabanka sem ræður vaxtastigi í sambandi við hana. Hér hafa menn farið fram og til baka og karpað svolítið um það hvort eitthvað sé íslensku krónunni að kenna eða ekki. Mér finnst það ekki vera atriðið. Atriðið er hvernig þetta virkar, hvernig við viljum að þetta virki, fyrir hvern og hverjar eru staðreyndirnar og auðvitað síðast en ekki síst, hvaða kenningar eru réttar um samspil þessara staðreynda og þeirra markmiða sem við erum að reyna að ná.

Ég er búinn að dunda mér hérna í þingsal við að reikna úr tölum frá Hagstofunni og mig langar að nefna eitt sérstakt atriði sem ég veit að fer eflaust svolítið í taugarnar á fólki en það verður bara að hafa það vegna þess að við getum ekki leyft einhverjum pirringi að þvælast fyrir staðreyndum þegar við erum að tala um svona mál. Það eru hlutir sem eru oft sagðir í umræðunni sem eru einfaldlega ekki réttir eins og það að lánin hækki og hækki og launin ekki. Það er bara rangt. Ég er ekkert að verja hæstv. fjármálaráðherra, ég er ekkert að þakka honum fyrir það. Ég er bara að benda á að samkvæmt tölunum sem við höfum þá er það rangt. Launin hafa hækkað mun meira. Ef það er einhver ágreiningur um það þá þætti mér gaman að fólk kæmi fram með staðreyndir, einhverjar tölur.

Ég skal nefna dæmi. Áðan vorum við hv. þingmaður að tala um hvaða tímabil við ættum að miða við og ég tók 2008 af ástæðum sem ég nefndi fyrr í þessari ræðu, mér finnst hrunið vera ákveðin skil í hagsögu Íslands, mér finnst það rökrétt. Kannski er það rangt hjá mér, en ég nefndi það alla vega. Hv. þingmaður nefndi að það er líka hægt að reikna þetta aftur til ársins 1989 og eins og ég þekki af þeim hv. þingmanni þá er það alveg rétt hjá honum. Staðreyndirnar hans voru alveg réttar eftir því sem ég fæ best séð og við getum alveg rætt þetta á þeim forsendum. Þurfum ekkert að tala um kjark, kjarkur kemur þessu ekki við.

Hvað varðar hugmyndaauðgina eða meintan skort þar á, þá er enginn skortur á hugmyndum hérna heldur, fólk er bara ósammála um þær og það má. Það er bara hollt, það væri skrýtið ef svo væri ekki. Það er þess vegna sem mér finnst gaman að þessari umræðu.

Ég ætla að nefna tvennt að lokum vegna þess að ég átti hér samtal við aðra hv. þingmenn um ýmislegt, eins og krónuna og fleira. Annars vegar varðandi verðtrygginguna, þá lít ég á það sem kerfislega spurningu. Hvað varðar neytandann, þá eru bara tvær spurningar: Hvaða val hefur neytandinn og hvaða neytendavernd hefur neytandinn? Ég vil að hann hafi sem mest af hvoru tveggja. Samspilið þarna á milli er ekkert endilega einfalt, þetta eru ekki endilega samrýmanleg markmið, það er hægt að auka valið á kostnað neytendaverndar og öfugt. Reyndar ef ég leyfi mér að umorða það sem ég hef heyrt í þessari umræðu, ekki endilega hér í dag, þá er markmiðið nákvæmlega það að takmarka valið til þess að auka neytendavernd. Það er svo sem ekkert verri forsenda. Fólk getur verið þeirrar skoðunar, það er ærleg afstaða líka, ég hef hana bara ekki sjálfur.

Það sem mig langar fyrst og fremst til þess að hamra á er að ég hef gefið mér að við ætlum að hafa tvö einkenni íslensks hagkerfis. Ég hef gefið mér það til þess að reyna að komast hjá umræðunni um hvort við eigum að fara í ESB eða taka upp aðra mynt eða eitthvað svoleiðis. Þessar tvær forsendur eru: Að við ætlum að hafa sjálfstæða peningastefnu, með öðrum orðum íslenska krónu, ég hef gefið mér það. Í öðru lagi: Að við ætlum að hafa frjálst flæði fjármagns, þ.e. að vera án fjármagnshafta. Þetta virðist vera stefnan sem Ísland ætlar að hafa eftir öllum merkjum að dæma. Ef ég tala við einhverja sérfræðinga þá segja þeir allir að það sé óeðlilegt ástand að hafa ófrjálst flæði fjármagns, að hafa höft, þau eigi ekki að viðgangast að jafnaði, þau séu neyðarúrræði fyrir neyðartíma.

Þetta telst almenn skynsemi í þessum geira eins og ég skil hann og þess vegna gef ég mér þessa hluti. Ekki endilega vegna þess að ég vilji hafa þá þannig. Og ef við gefum okkur þessa tvo hluti þá verður krónan óstöðug. Hún bara verður það. Þá er ég ekki að segja að við þurfum að henda henni burt, ég er bara að segja að þá þurfum við að gera ráð fyrir því. Kannski getum við sleppt því að hafa frjálst flæði fjármagns, getum haft höft, varanleg höft. Sjáum til hvað EES segir um það en allt í lagi, það er einn möguleiki. Þá erum við með sjálfstæða peningastefnu og kannski myndu þá verkfæri Seðlabankans bíta almennilega og krónan yrði þokkalega stöðug. Það getur verið. Ég held t.d. að vaxtatæki Seðlabankans gangi alveg ágætlega þegar það eru höft, þau fari hins vegar að grafa undan okkur þegar höftin eru farin.

Hinn möguleikinn er að hafa ekki sjálfstæða peningastefnu. Það er einn möguleiki. Ef við ætlum að hafa þetta tvennt, sjálfstæða peningastefnu og frjálst flæði fjármagns, þá verður hér óstöðugleiki með tilheyrandi rugli sem því fylgir. Það er ekki vegna þess að ég vilji að það sé þannig, það er ekki vegna þess að ég vilji að íslenska krónan sé óstöðug, það er ekki vegna þess að ég vilji fara í ESB. Mér finnst það bara skipta máli þegar við erum að reyna að takast á við þessi einkenni að við áttum okkur á forsendunum á bak við þau.

Mér fannst áhugaverð umræðan um vexti, því miður kemst ég ekki lengra að þessu sinni en í það minnsta vil ég þakka öllum sem taka þátt í þessari umræðu vegna þess að mér finnst hún áhugaverð. (Forseti hringir.) Ég held að hún haldi áfram, ég vona að hún haldi áfram vegna þess að það er gott ef Íslendingar eru almennt (Forseti hringir.)inni í þessum málum, sama hvernig fer.