148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:55]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þær efasemdaraddir sem mér finnst hafa skipt mestu máli og í rauninni allan tímann í umfjöllun við málið er sá skammi tími, ef þetta hefði orðið að lögum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem fram undan eru, vegna þess að það er miklu fleira sem þarf að þroskast í umræðunni í samfélaginu áður en það kemur að fyrstu kosningunum, fleira en það sem opinberar stofnanir þurfa að sinna.

Sá ungmennahópur sem mun fá kosningarréttinn yngri í fyrsta sinn þarf ákveðinn tíma til þess að samsama sig þeim réttindum og taka ákvörðun um hvort þetta er eitthvað fyrir hvern og einn, hvort hver og einn einstaklingur vill setja sig inn í málin og nýta kosningarréttinn. Það er nokkurra mánaða eða nokkurra ára umhugsun. Það eru þær efasemdir sem mér fundust veigamestar í þessu máli. Ég tel að tíminn sem gefst fram að næstu sveitarstjórnarkosningum sé nægjanlegur, bæði fyrir þessa umræðu og eins fyrir það sem opinberir aðilar þurfa að vinna.