148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Nákvæmlega, tek undir þau töluðu orð úr þessum ræðustól, við eigum nefnilega að fá tækifæri til þess að ræða meira málin hér, tala svolítið pólitískt og þora að taka afstöðu í málum sem eru þverpólitísk. Það eru sumir flokkar sem eiga erfitt með að gefa upp nákvæmlega skoðun sína t.d. á staðsetningu sjúkrahússins eða hver afstaða þeirra er varðandi það að ná þjóðarsátt um kjör kvennastétta. Við vitum að hluti Sjálfstæðisflokksins er algjörlega á móti því að við samþykkjum þingsályktunartillögu um þjóðarsátt um kjör kvennastétta meðan annar partur af þeim ágæta flokki er fylgjandi því. En af hverju getum við ekki tekið þá umræðu? Þetta er fullrætt í nefndum. Af hverju er ekki hægt að ræða þetta hér?

Það sem ég óttast núna þegar ég horfi á dagskrá þingsins, virðulegur forseti, er eitt mál — þetta er dæmi um það að við í stjórnarandstöðunni viljum koma málum frá ríkisstjórninni í gegnum þingið — og það er mál sem varðar tolla og tollkvóta á sérostum. Það er 17. mál á dagskrá. Það sýnir að ekki er mikill vilji til þess að setja málið ofar á dagskrá til að afgreiða það. Við í atvinnuveganefnd vorum fullvissuð um það að hæstv. landbúnaðarráðherra (Forseti hringir.) ætlaði að klára málið og koma því í gegn. En það er ein birtingarmynd þess að það er mál frá ríkisstjórninni sem stjórnarflokkarnir (Forseti hringir.) sjálfir þora ekki að koma með inn í þingið og treysta sér ekki til að (Forseti hringir.) takast á við þingið með. Það er bagalegt.

Ég vil hvetja hæstv. forseta (Forseti hringir.) til að færa það mál er varðar innflutning á sérostum ofar í dagskrána í dag.