148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

borgarlína.

[15:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í tilefni af því að í tveimur síðustu stjórnarsáttmálum hefur verið minnst á borgarlínu vil ég að það komi fram að báðir samgönguráðherrarnir í þeim ríkisstjórnum hafa lagt á það áherslu að ekki verði rætt einslega um borgarlínuna eða bættar almenningssamgöngur án þess að það sé sett í eitthvert heildarsamhengi samgangna á viðkomandi svæði, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu. Það er alveg ljóst að þörf er fyrir verulegt fjármagn, þótt ekki sé nema í viðhald og aðrar stofnvegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta þekkjum við í tengslum við Reykjanesbrautina og tengingar út úr höfuðborginni. Það er fyrst þegar menn hafa náð heildaryfirsýn yfir verkefnin sem bíða okkar sem hægt er að hafa væntingar um að niðurstaða fáist í það formlega samtal sem sjálfsagt er að eiga. Þegar öll sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins (Forseti hringir.) kalla eftir því samtali finnst mér ekki annað en sjálfsagt að setjast niður. (Forseti hringir.) En það er mjög langt í að við sjáum niðurstöðu úr því samtali.