148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

bætt kjör hinna lægst launuðu.

[15:30]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska okkur öllum til hamingju með nýgengnar sveitarstjórnarkosningar.

Senn líður að sumarfríi okkar þingmanna og enn situr fólkið okkar úti í samfélaginu og biður um réttlæti. Fátækt fólk er enn að bíða eftir réttlætinu sem því var heitið af okkur öllum í kosningabaráttunni í haust.

Það hefur brunnið á mér lengi — og ég vildi að ég gæti verið að beina þessari fyrirspurn til hvers einasta þingmanns, svo ég tali nú ekki um hvers einasta fulltrúa sem situr í ríkisstjórn og er með þetta málefni í fanginu núna — réttlætismálið um að færa fjármagn til í kerfinu, og þá er ekki verið að tala um stóraukin útgjöld til ríkissjóðs. Við erum að tala um að taka fjármagn frá okkur sem erum á ofurlaunum hér, ásamt fleirum í samfélaginu sem eru á ofurlaunum og eiga nánast allan þjóðarauðinn, og færa þótt væri ekki nema persónuafsláttinn frá okkur til þeirra sem höllustum fæti standa og fá niður í 220.000–230.000 kr. útborgaðar á mánuði og eru jafnvel með börn á framfæri. Við vitum meira að segja að sú fjárhæð dugar ekki til þess að greiða fyrir húsaleigu eins og hún er í boði í Reykjavík í dag.

Það sem mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra er: Hæstv. fjármálaráðherra, sæir þú nokkuð eftir því að gefa eftir þennan persónuafslátt til þeirra þegna okkar og þjóðfélagshóps sem virkilega þarf á honum að halda? Ef svo er, þá hvers vegna?