148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

hreyfing og svefn grunnskólabarna.

445. mál
[16:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Tilurð þessarar fyrirspurnar er meðal annars grein sem birtist í Læknablaðinu í febrúar sl. um einmitt þetta efni, þ.e. þar sem greint er frá rannsókn Vöku Rögnvaldsdóttur og félaga við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þar kemur fram að í dag er það svo að einungis um rúmur þriðjungur stúlkna í grunnskólum og rétt rúmur helmingur drengja við 16 ára aldurinn hreyfir sig nægilega mikið til að uppfylla lýðheilsumarkmið. Við vitum að hreyfing er mikilvæg með tilliti til heilsu, þar með talið svefns. Sýnt hefur verið fram á að hreyfing og líkamsrækt er mikilvæg með tilliti til meðferðar og fyrirbyggjandi þátta margra sjúkdóma. Það skiptir því verulegu máli að skapa þær aðstæður og leggja grunn að þeim lífsstíl að hreyfing sé eðlilegur hluti af daglegu lífi. Þar skipta skólarnir gríðarlega miklu máli og þáttur þeirra í því að taka þetta föstum tökum verður sennilega seint ofmetinn.

Það er þannig í dag að íþróttir eru hluti af skólastarfi, bæði á grunnskóla- og framhaldsskólastigi, og að sumu leyti á leikskólastiginu. En það er kannski spurning hvort ekki þurfi að gera eitthvað meira.

Því legg ég fram eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. ráðherra:

1. Telur ráðherra vænlegt með tilliti til niðurstaðna rannsókna á hreyfingu og svefni reykvískra ungmenna, sem birtast í 2. tölublaði 104. árgangs Læknablaðsins, að leita samstarfs við íþróttahreyfinguna um það verkefni að auka hreyfingu grunnskólabarna og hvernig færi best á skipulagi slíks samstarfs?

2. Hvaða kröfur ætti að gera um menntun þeirra sem myndu annast í þróttakennslu í samstarfi grunnskóla og íþróttafélags?

3. Mun ráðherra stuðla að frekari rannsóknum á hreyfingu og svefnvenjum barna og ungmenna til að afla fyllri vitneskju um þau málefni?

4. Hvaða úrræði telur ráðherra koma til greina til að stuðla að því að börn og ungmenni fái meiri svefn en þau fá nú samkvæmt niðurstöðum fyrrgreindra rannsókna?

Það er rétt að taka fram í því tilliti að einungis 11%, þ.e. eitt af hverjum níu ungmennum á þessu aldursbili, þ.e. 16 ára börn, uppfylla bæði skilyrðin. Það er alveg ótrúlega lítið. Ég tel að við þurfum með einhverju móti að bregðast þarna við og beini því þessum spurningum til hæstv. ráðherra.