148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[15:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sé það svo að hæstv. forseti hafi á sínum tíma legið undir feldi á Þingvöllum og velt fyrir sér hvernig leysa mætti málin held ég að það væri sniðugt að leggjast núna undir feld og reyna að finna lausnir á þeim málum sem hér er deilt um, þ.e. hvernig vinnubrögðin eru á hinu háa Alþingi.

Mig langar að velta því fyrir mér og ætla bara að gera það upphátt: Getur virkilega verið að þetta mál hafi verið geymt fram yfir sveitarstjórnarkosningar? Hvernig hefði þá farið fyrir VG ef þau hefðu þorað að koma með það fyrir þær kosningar? Ég velti því fyrir mér. Svo er það magnað að VG virðist vera einhvern veginn vera komið í það núna að hreinsa upp kjarkleysi Sjálfstæðisflokksins sem ekki þorði að leggja þetta mál fram. Hvers vegna kom ekki sjávarútvegsráðherra sjálfur með málið inn í þingið sem stjórnarfrumvarp? Það vita allir að þau fá forgang hér. Nei, kjarkinn vantaði sem oft hefur vantað í þennan þingsal.

Nú spyr maður sig einu sinni enn: Hvar er kjarkurinn? Hann er ekki hjá Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í: Hann er hér.)