148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

kjararáð.

630. mál
[15:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi erum við ekki búin að fá frumvarpið og afgreiða það, það er aldrei í hendi, ekki endilega. Hitt atriðið er, eins og hv. þingmaður segir, að þetta verði fastsett í lögum. Þá verður fastsett í lögum krónutala. Krónutalan þarf að breytast í lögum á hverju ári með ákvörðun Alþingis, sem er mælt með að sé samkvæmt einhverjum hagtölum frá Hagstofu Íslands, einhverjum meðaltölum o.s.frv. Það getur vissulega gengið blessunarlega fyrir sig, en var varnaglinn, um almenna launaþróun, í lögum um kjararáð ekki nákvæmlega eins?

Þegar við komum til með að ákveða og breyta lögum um ráðamenn, þingmenn, ráðherra, forseta Íslands, dómara o.s.frv., komum við til með að þurfa að samþykkja frumvarp sem breytir þessari krónutölu. Um leið og við víkjum í plús eða mínus frá þeim tölum sem eru gefnar upp hjá Hagstofunni erum við að taka ákvarðanir um eigin laun. Þetta er kannski ákveðið tækniatriði, en þegar allt kemur til alls þurfum við að greiða atkvæði um að breyta krónutölunni innan húss um okkar eigin laun.

Ég sé ekki muninn akkúrat eins og er á þessari hlutfallslegu breytingu, sem á að gerast miðað við meðallaun opinberra starfsmanna og svoleiðis, og þessari almennu launaþróun sem var í kjararáði. Það tókst ekki þar að halda viðmiðunum um almenna launaþróun. Ég leyfi mér að vera efins um að þetta fyrirkomulag gildi í raun að eilífu upp á það að gera.