148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Í gær var kynnt, með miklum bravör, skýrsla sem heitir Framtíð íslenskrar peningastefnu. Nú er það ekki svo að sá sem hér stendur hafi lesið allar 247 blaðsíðurnar en í þessari skýrslu er að finna vísbendingar um hvernig menn sjá fyrir sér breytta peningastefnu Seðlabanka Íslands.

Mig langar, með leyfi forseta, að leggja sérstaka áherslu á tillögu nefndarinnar nr. 5 þar sem segir:

„Verðbólgumarkmið Seðlabankans skal áfram miðast við 2,5% en sú verðvísitala sem markmiðið nær til skal ekki taka mið af kostnaði vegna eigin húsnæðis. Verðbólgumarkmið skal því undanskilja húsnæðisverð.“

Það gleður mig mikið að þetta baráttumál okkar Miðflokksmanna skuli rata með svo eftirminnilegum hætti inn í þessa skýrslu. Og þessi skýrsla hefur m.a. haft þau áhrif að meira að segja formaður Framsóknarflokksins tók óvænt á sig rögg og sagði að Framsóknarflokkurinn hefði alltaf stutt þetta mál. Það gladdi mig. Þá fjölgar í þessum sal þeim sem vilja styðja við þetta þjóðþrifamál.

Okkur gefst nefnilega einstakt tækifæri núna til þess að uppfylla það sem hér segir vegna þess að nú liggur fyrir þinginu, reyndar enn í nefnd, frumvarp okkar Miðflokksmanna um að húsnæðisliður fari út úr vísitölugrunni. Við getum svarað kalli þessarar skýrslu nú þegar og raungert það sem hér kemur fram, að húsnæðisverð fari út úr vísitölugrunni. Ég hvet þingheim til að grípa tækifærið og koma þessu réttlætismáli í höfn. Ég er næsta viss um að ef það gerist á þessum vordögum mun það t.d. greiða fyrir kjarasamningagerð sem liggur fyrir síðar á árinu. Það hefur jú komið fram af hálfu nokkurra verkalýðsfélaga að það er áhugamál þeirra að þetta verði gert.

Ég hvet þingheim til að svara þessu kalli, drífa málið úr nefnd og afgreiða það nú þegar.