148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

tollalög.

518. mál
[20:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Við 1. umr. þessa máls lýsti ég yfir stuðningi við það, en ég gerði líka að umtalsefni þær aðstæður sem fólk býr við í þessum löndum og er að framleiða þær vörur sem við ætlum núna að aflétta tollum af. Á svipuðum tíma og við vorum að ræða þetta mál í 1. umr. vorum við líka að ræða gagnkvæman fríverslunarsamning við Filippseyjar og ég varð var við það að mönnum fannst það alveg ótækt vegna stjórnarfarsins sem þar ríkir um þessar mundir. Það vill nú þannig til að í þessum 47 ríkja hópi sem hér er undir eru ekki skátahöfðingjar við völd í þeim öllum, því miður, heldur eru þar yfirvöld sem t.d. grýta samkynhneigða á götum úti o.s.frv. og fara fram með hluti sem við í sjálfu sér samþykkjum ekki, viljum ekki samþykkja og eigum ekki að samþykkja. Ég get því að mörgu leyti tekið undir með þeim ræðumanni sem hér talaði á undan mér að í raun og veru værum við kannski að gera betur við þessar þjóðir með því að gera við þær samkomulag um þróunaraðstoð en að fella endilega niður tolla af þeirra varningi.

Auðvitað er það þannig að við, ef einhver, eigum að skilja vel þá aðstöðu sem þessar þjóðir eru í vegna þess að það eru ekki nema 150 ár síðan við vorum á sama stað og þær eru núna, svona um það bil. Auðvitað var það frjáls verslun á sínum tíma sem gerði okkur kleift að bæta lífskjörin og lyfti þar grettistaki, fyrir utan náttúrlega það að við fórum að hagnýta okkar auðlindir.

Þá komum við að öðru, því þessar ágætu þjóðir sem hér um ræðir eru margar ofurseldar alls konar auðhringum og aðilum sem misnota þeirra auðævi sem liggja bæði í jörðu og ofan á jörðinni. Það er viss tvískinnungur í því hvernig við Vesturlandabúar lítum á þessar þjóðir og það sem þær framleiða. Ég hef stundum sagt í hálfkæringi að í raun og veru ættum við, ef við værum samkvæm sjálfum okkur, að banna innflutning á súkkulaði vegna þess að það eru væntanlega engir bændur í heiminum jafn illa farnir af auðhringum og verslunarauðvaldi en einmitt kakóbændur. Þeir eru gjörsamlega trampaðir niður. Og kaffibændur í Suður-Ameríku, svo ég nefni annað dæmi. Þetta eru hvort tveggja stéttir gagnvart hverjum hefur verið fram af fádæma hörku og grimmd, en við fáum ódýrt súkkulaði og ódýrt kaffi og erum bara þokkalega sátt. Sama á við um vörur sem unnar eru úr bómull. Ég orðaði það hér um daginn þannig að þegar maður er að kaupa bómullarflík sem kostar kannski eitt pund, eitt sterlingspund, þá veltir maður fyrir sér: Hvað fékk bóndinn í sinn hlut? Hvað fékk sá sem var að tína bómullina saman?

Ég held að það sé kannski meira um vert fyrir okkur að horfa akkúrat á þetta. Sú þróunaraðstoð sem við höfum veitt og mörgum þykir fátækleg og lítil og aum hefur þó miðast að því að reyna að gera fólk meira sjálfbjarga en áður, þ.e. kynna því tækni sem við þekkjum eins og t.d. við að veiða fisk, og síðan að veita þessu fólki aðstoð sem varðar heilbrigðisþjónustu og fleira eins og við höfum verið að gera í Malaví og víðar, reyna að koma í veg fyrir barnadauða og mæðradauða o.s.frv.

Því kem ég fram með þennan vinkil vegna þess að í þessum hópi ríkja eru, eins og ég segi, stjórnvöld sem t.d. níðast á samkynhneigðum. Þarna eru stjórnvöld sem leggja blessun sína yfir barnabrúðkaup. Eins og menn vita þá eru 39 þúsund börn gefin í hjónabönd á hverjum einasta degi í heiminum árið um kring. 39 þúsund börn. Mér finnst í raun og veru að þegar svona ákvörðun er tekin eins og við erum að taka hér — og það kann vel að vera að við höfum tekið okkur allt of langan tíma í að taka þessa ákvörðun, — eigum við að vera með það fyrir augum, jafnvel í gegnum viðskiptasambönd eða með einhverjum hætti, að koma hinum sjónarmiðunum á framfæri.

Ég orðaði það reyndar þannig um daginn að misnotkun á fólki t.d. í landbúnaðargeiranum er miklu nær okkur en við höldum. Ég nefndi t.d. dæmi frá Sikiley þar sem rúmenskar konur eru við uppskeru á grænmeti, meira að setja misnotaðar kynferðislega. Okkur er alveg sama því að við fáum ódýrt grænmeti á diskinn. Ef við viljum vera ábyrgir neytendur, ábyrgir þátttakendur í samfélagi þjóðanna, þá hljótum við að hugsa um þessi mál líka um leið og við leggjum okkar af mörkum til að þessar þjóðir verði sjálfbjarga með svipuðum hætti í raun og okkur var gert kleift fyrir 150 árum, þ.e. í gegnum frjálsa verslun.

Þá kemur aftur að því að við þekkjum það best að hér var ekki frjáls verslun í 700 ár vegna þess að hér var einokun o.s.frv., sem reyndar hefur látið á sér kræla aftur á 20. og 21. öldinni, en það er önnur saga. Á þennan hátt eigum við náttúrlega að nýta þá reynslu sem við höfum sjálf af því að vera undirokuð og kúguð til þess að reyna að skilja betur þjóðir sem eru í sömu stöðu og við vorum þá. Við berum í raun og veru meiri og ríkari skyldur en margir aðrir vegna þess að við höfum verið í þessari stöðu sjálf.

Því dreg ég þetta hér upp að mér hefur þótt gæta ákveðins tvískinnungs í framkomu okkar út á við við hinar ýmsu þjóðir, við höfum verið svona heilög í framan gagnvart einhverjum þjóðum en látið síðan sem ekkert sé og látið átölulaust alls konar kúgun og misnotkun sem viðgengst í þeim löndum sem við höfum viðskipti við. Af því að við búum að þeirri reynslu sem ég var að rekja hér áðan þá ættum við kannski að geta verið framar í flokki í því að reyna að koma á heilbrigðari viðskiptaháttum við einmitt lönd í þessari stöðu en aðrir. Líkt og ég sagði við 1. umr.: Við erum hér að eiga við þjóðir sem lengi voru undirokaðar af þjóðum sem hafa árhundraða reynslu af nýlendukúgun. Bæði Bretar, Þjóðverjar og Hollendingar og fleiri og fleiri hafa aldalanga reynslu af því að kúga aðrar þjóðir og hafa reist efnahag sinn að miklu leyti á því að kúga nýlendur sínar í nokkur hundruð ár. Þess vegna stendur þetta okkur nær, verandi eins og maður segir nýfrjáls ef við getum orðað það þannig, þetta eru ekki nema tveir, þrír mannsaldrar. Við ættum að finna til ábyrgðar í þessu máli og láta hana koma í gegnum þau viðskiptasambönd sem við gerum við þjóðir sem eru þarna staddar eins og ég var að lýsa áðan.

Að því sögðu þykir mér að sjálfsögðu þetta mál jafn gott mál og þá. En ég get ekki látið það liggja hjá garði að fara aftur með þessi varnaðarorð og brýningu til íslenskra stjórnvalda að reyna að beita áhrifum þessa lands til góðs. Við erum sem betur fer af þeirri stærð þjóða að það stendur engum ógn af okkur svo ég viti til. Síðan við vorum að drepa hver annan með sverðum 1244 eða þar um bil, þá höfum við ekki staðið í miklum illdeilum við fólk, hvað þá heldur utan lands. Við höfum ekki sótt á neina þjóð með hernaði eða einhverju slíku. Að því leyti til erum við í kjörstöðu til þess að reyna að hafa áhrif til góðs í þessum málum.

Það vill nú þannig til að Íslendingar eru þokkalega kynntir t.d. eins og hjá Sameinuðu þjóðunum og hafa þar áhrif í ýmsum málum langt umfram áhrif þjóðarinnar á heimsvísu. Ég nefni bara sem dæmi að hjá Sameinuðu þjóðunum er hlustað þegar við Íslendingar tölum um jafnréttismál. Það er leitað í smiðju til Íslendinga í jafnréttismálum þótt okkur finnist sjálfum margt óunnið hér. Það er margt óunnið en þrátt fyrir það getum við samt verið fyrirmynd annarra þjóða í þessum málum og komið að liði.

Þessi orð mín eru ekki ætluð sem einhvers konar sjálfsupphafning þjóðarinnar eða þjóðremba eða eitthvað slíkt, heldur einungis að við getum komið að liði. Það er allt annað mál. Og við getum nýtt okkar reynslu, okkar þekkingu, akkúrat þarna.

Þá kemur að þessu sem ég segi: Ætlum við þá ekki að reyna að beita áhrifum okkar ef við höfum einhver til þess að koma í veg fyrir barnabrúðkaup, til þess að koma í veg fyrir misþyrmingu eða misþyrmingar á kynfærum kvenna, til þess að koma í veg fyrir að fólk sé í ánauð, vegna þess að það þekkist á þessum slóðum? Ég held einmitt að með því skrefi sem við erum að stíga núna, sem er mikilvægt og mikilsvert og getur komið þessum þjóðum mjög vel, þá verðum við að beita áhrifum okkar í þessa átt. Við eigum að sjálfsögðu að beita áhrifum okkar í þá átt að stjórnvöld í einhverju ákveðnu landi eða ákveðnum löndum hætti t.d. að grýta samkynhneigt fólk úti á götum og leggja blessun sína yfir það. Auðvitað eigum við að reyna að beita áhrifum okkar ef við höfum þau.

Síðan kemur að því sem ég ræddi líka við 1. umr., af því að hér var áðan talað um landbúnaðarafurðir, að Danir eru hættir eða hættu alla vega um tíma að flytja inn afskorin blóm frá Afríkuríkjum vegna þess að þeir höfðu vissu fyrir því að með verkafólk, einkum konur, sem þar komu að störfum var farið eins og þræla. Það var misnotað á alla lund. Þá segi ég aftur: Við eigum að vera ábyrgir neytendur. Við eigum ekki að flytja inn hvað sem er í nafni frelsis ef það bitnar á þeim sem síst skyldi, þ.e. verkamönnum sem vinna við þetta.

Nýlegt dæmi sem ég hef áður minnst á varðar það hvernig menn beita niðurgreiðslum. Bandaríkjamenn eru nánast búnir að eyðileggja sjálfsþurftarbúskap hrísgrjónabænda á Haíti eftir jarðskjálftana sem urðu þar fyrir allnokkrum árum. Þegar landbúnaðurinn þar var í algjörri rúst og allt í rúst þá fóru Bandaríkjamenn allt í einu að hella þar inn niðurgreiddum hrísgrjónum frá Arkansas sem bandaríska alríkið borgaði niður. Með þessu dömpuðu þeir inn, afsakið orðbragðið herra forseti, helltu inn, ætlaði ég að segja, ódýrum hrísgrjónum og eyðilögðu lífsviðurværi fjölda fólks sem hafði árum saman haft lítinn sjálfsþurftarbúskap og ræktað hrísgrjón bara í kálgarðinum bak við húsið hjá sér.

Það sem ég segi með þessu er að við eigum að fara mjög varlega í því að opna leiðir til þess að það sé hægt að misnota enn meir neyð þjóðanna sem heildar og fólksins sem þar býr. Við verðum að stíga varlega til jarðar. Um leið og við gefum þessu fólki kost á því að auka frjálsa verslun í sínu heimalandi þá hljótum við jafnframt að gera ákveðnar kröfur til þeirra, rétt eins og við gerum til okkar sjálfra, um að ekki sé farið illa með það fólk sem er að vinna að því að við fáum ódýrari vörur hingað inn til landsins.

Að þessu sögðu þá mun ég að sjálfsögðu samþykkja þetta frumvarp en mun alveg örugglega líka koma fram með mál í einhverri mynd, hvort sem það verður þingsályktunartillaga eða fyrirspurn til bæði hæstv. utanríkisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, um það að við beitum þeim áhrifum sem við getum haft til góðs fyrir þessa fátækustu bræður okkar og systur.