148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

persónuafsláttur og skattleysismörk.

[10:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ef við myndum bera saman lífeyrisþegann í upphafi þess kerfis sem hv. þingmaður vék að, og spyrja okkur: Hvort hafði hann það betra þá eða í dag, þrátt fyrir að hluti tekna renni í skattgreiðslur? held ég að niðurstaðan væri mjög augljós. Okkur hefur tekist að stórhækka lífeyrisgreiðslur, hvort sem er ellilífeyri eða örorkulífeyri, á undanförnum árum og reyndar er það svo, og það ætti ekki að dyljast neinum, að ef við skoðum síðustu fimm árin og síðan aftur fjármálaáætlunina sem liggur fyrir þinginu er verið að forgangsraða í þágu hærri greiðslna.

Hv. þingmaður er kannski síður að spyrja um það og meira um hvernig við beitum skattkerfinu gagnvart lægstu launum. Verið hefur mikið í umræðunni að undanförnu að lægri tekjutíundirnar hafi á undanförnum árum fengið hærri skattbyrði. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að tekjur þessara tekjutíunda hafa verið að aukast stórlega. Þá er eðlilegt að spurt sé: Ættum við að leggja hærri skatta á millitekju- og hátekjufólkið til að geta létt af sköttum á lægri tekjur? Svar mitt við þeirri spurningu er í fyrsta lagi: Við erum þegar með kerfi í dag, eins og hv. þingmaður vék að, sem tekur mun lægri skattprósentu af lægri tekjum en efri tekjum. Þeir sem eru með hæstu tekjurnar borga flestar krónurnar og hæsta hlutfallið, þeir sem eru með lægstu tekjurnar borga fæstar krónurnar og lægsta hlutfallið.

Ég vil halda áfram að létta á skattbyrði. Ég tel að það þurfi ekki að hækka skatta á ákveðna hópa til þess að lækka þá á öðrum, heldur eigum við einfaldlega að nota það hagvaxtarskeið (Forseti hringir.) sem við erum á í dag til að lækka skatta almennt. Við erum að gera ráð fyrir svigrúmi til þess í fjármálaáætluninni og höfum boðað aðgerðir á haustmánuðum.