148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

almenna persónuverndarreglugerðin.

[11:02]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það kann samt að vera einhver misskilningur hjá hv. þingmanni hvað varðar innleiðingu á reglugerðinni í landsrétt landanna í Evrópu. Það er ekki þannig að löndin sleppi með að taka bara upp reglugerðina inn í landsrétt eins og hún er, heldur hefur þurft, eins og t.d. Noregur sem fór þó þá leið að birta reglugerðina sem slíka sem lagatexta, að gera jafnhliða miklar breytingar á ýmsum lögum með mjög flóknum bandormi. Þegar sá bandormur er rýndur sem lagður var fram í Noregi kemur í ljós að þar fara Norðmenn svipaðar leiðir og við í útfærslu á ýmsum þáttum. Ég tek sem dæmi ákvæði um persónuvernd yfir upplýsingum um látna menn. Ég tek það bara sem dæmi af því að þar er heimild til að fara ýmsar leiðir. Danmörk og Noregur hafa miðað þarna við tíu og fimm ár, við förum þá leið að miða við fimm ár. Mér sýnist þegar maður fer að rýna í norska bandorminn að þar sé um að ræða algjörlega ótímabundna vernd á persónuupplýsingum látinna manna, svo ég taki það sem dæmi.

Ég veit að hv. þingmaður hefur mestan áhuga á sektarákvæðum þessa máls. Það er alveg ljóst að reglugerðin sjálf kveður á um háar stjórnvaldssektir og undan því verður ekki komist. Öll lönd þurfa að miða við þessa sömu fjárhæð. Hins vegar er líka heimild fyrir ríkið til að vera með ákvæði um dagsektir. Það höfum við nýtt okkur í frumvarpinu sem ég legg fram enda hafa dagsektir verið í löggjöfinni í 18 ár án þess þó að þeim hafi verið beitt svo nokkru nemi, mögulega aldrei, gæti ég ímyndað mér. Hitt er annað mál að dagsektir eru það úrræði sem virkar best í forvörnum í þessum efnum. Að mínu mati er skynsamlegt að halda þessu ákvæði inni þannig að um það verður óbreytt ástand.