148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

verðtrygging fjárskuldbindinga.

[11:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Verðtryggingin er eins og við vitum öll mannanna verk. Hún var ákveðin, eins og fram hefur komið í þessum sal, árið 1979 með setningu svokallaðra Ólafslaga. Reyndar hafði hún verið við lýði síðan 1955 að hluta með lögum um húsnæðismálastjórn þar sem 1/4 hluti hvers láns var verðtryggður. Rökin fyrir verðtryggingunni voru mikil verðbólga, tregða lánastofnana til lánveitinga og hvatning til sparnaðar. Auk þess var mikil verðbólga á heimsvísu.

Verðtryggingin var sett til þess að bregðast við verulega neikvæðum aðstæðum í efnahagslífinu. Verðtryggingin á árunum í kringum 1980 var um 60%. Bankainnstæður og lán urðu að engu og bankar skiljanlega mjög tregir til lánveitinga. Við það bættust aðstæður á heimsvísu eins og mjög hátt olíuverð. Í dag búum við við allt aðrar aðstæður. Verðbólga er lág, hér ríkir stöðugleiki og olíuverð er lágt. Þrátt fyrir það er verðtryggingin enn í fullu gildi. Í sögulegum og efnahagslegum samanburði er engin þörf fyrir verðtryggingu á Íslandi í dag. Stjórnmálaflokkar hafa reglulega fyrir kosningar ýmist lofað því að draga úr vægi verðtryggingar eða afnema hana með öllu. Við þekkjum öll hvernig gengið hefur að efna loforðin, ekkert gerist og það er ekki síst ákvarðanafælni stjórnmálamanna að kenna.

Við gætum t.d. farið strax að fordæmi laganna frá 1955 og látið verðtrygginguna aðeins gilda að hluta, síðan yrði hún afnumin í áföngum. Við gætum innleitt ákveðið aðlögunarferli, fyrst þannig að verðtryggingin myndi gilda að 3/4 af hverju láni, síðan helming, síðan 1/4 af hverju láni og loks hyrfi hún alveg. Mér heyrðist ráðherra opna fyrir þann möguleika í ræðu áðan að lán gætu verið verðtryggð að hluta og það þykir mér jákvætt. Þetta er allt framkvæmanlegt og við getum hafist handa strax.