148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni ræðuna og innlegg í umræðuna. Hv. þingmaður starfar í hv. fjárlaganefnd og fór mjög vel yfir nefndarálit 3. minni hluta. Ég ætla að byrja á því að segja, af því að hv. þingmaður sagði að meiri hluti hv. fjárlaganefndar hefði engan áhuga á landbúnaði, að mér þótti það sárt. Ég ætla að gerast mjög smásmugulegur og benda hv. þingmanni á álit meiri hluta nefndarinnar, bls. 21, þar sem segir:

„Auka þarf hlutdeild sjóða eins og AVS-sjóðsins og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.“

Í annan stað vil ég nefna þau málefni landbúnaðarins sem falla undir þau málefnasvið sem hér koma fram. Í þriðja lagi tókum við hv. þingmaður þátt í því að samþykkja við síðustu fjárlagagerð, lögðum okkur sérstaklega fram við það, sérstakan stuðning við sauðfjárbændur og útfærslu á honum. Til að því sé haldið til haga er þessi áhugi til staðar.

Það er margt sem ég myndi vilja ræða úr ræðu hv. þingmanns og ágætisnefndaráliti, og það sem kom fram í síðasta andsvari varðandi sviðsmyndir og hagspá og veikar efnahagsforsendur. Ég ætla að skilja þá spurningu eftir til hv. þingmanns — af því að hann fer yfir gjaldtöku í ferðaþjónustu og talar um hátt raungengi sem augljóslega er að trufla rekstur í ferðaþjónustu og ekki kannski alveg trygging fyrir því að þessi öri vöxtur haldi áfram — hvernig hann sjái það, hvort þessi markmið stangist ekki á.