148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. atvinnuveganefndar með breytingartillögu. Mig langar áður en ég held lengra, svo ég gleymi því örugglega ekki, að þakka sérstaklega fyrir þá góðu samvinnu sem ríkti innan hv. atvinnuveganefndar um málið. Uppbygging flutningskerfis raforku er gríðarlega mikilvægt mál og mér fannst allir nefndarmenn nálgast það með opnum huga og miklum vilja til að ná saman sem bestri tillögu um þetta mikilvæga mál. Öll vorum við sammála að vera áfram um að hér væri um alvörustefnumótun að ræða sem kæmi til framkvæmda en ekki bara orð á blaði og því leggjum við til ýmsar breytingar, einmitt til að styrkja þá sýn okkar.

Nefndin fékk til sín marga gesti, margar umsagnir komu um málið og við fjölluðum mjög ítarlega um það eins og vera ber. Tillagan er, eins og fram kemur og liggur fyrir á viðeigandi þingskjali, í 15 töluliðum þar sem kveðið er á um hvað skuli leggja til grundvallar við uppbyggingu flutningskerfis raforku hér á landi. Nefndin leggur til að bæta við einum tölulið þannig að þeir verði 16. Ég kem nánar að því síðar.

Örstutt að forsögunni. Þegar tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína var til meðferðar á Alþingi kom fram vilji til þess að tryggja aðkomu Alþingis að mótun kerfisáætlunar. Upp úr þeirri vinnu lítur þessi tillaga dagsins ljós þar sem ekki þótti samræmast tilskipun ESB að Alþingi samþykkti kerfisáætlun sem slíka. Þetta er tæki Alþingis til að koma að stefnumótun í raforkumálum.

Ljóst er að uppbygging og þróun á flutningskerfi raforku felur í sér umfangsmikið kerfi innviða með langan líftíma er varðar hagsmuni fólks og fyrirtækja um allt land. Við meðferð málsins í nefndinni var einkum fjallað um eftirfarandi atriði:

Í tillögunni kemur fram að flutningskerfið skuli treysta betur, það skuli tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um allt land. Rætt var í nefndinni um þau svæði sem helst þyrfti að leggja áherslu á. Bent var á að samkvæmt gildandi regluverki hefði til að mynda ekki reynst unnt að tryggja flutning á raforku til Eyjafjarðar. Auk þess hefur verið bent á að Vestfirðir séu það svæði sem búið hefur við hvað minnst raforkuöryggi. Nefndin leggur áherslu á að þau landsvæði verði í forgangi þar sem þörfin er brýnust, svo sem Eyjafjarðarsvæði, Vestfirðir og Suðurnes. Kemur hér það sem ég kom inn á áðan, að við viljum að sjónum sé beint að ákveðnum svæðum þar sem þörfin er hvað brýnust til að stefnan virki sem best.

Bent var á að flutningur raforku milli landsvæða væri háður takmörkunum og var lagt til að flutningsgeta milli landsvæða yrði miðuð við ákveðið lágmarkshlutfall af vinnslugetu virkjana sem tengjast flutningskerfinu. Nefndin leggur til að hugað verði nánar að þessu við fyrirhugaða endurskoðun.

Í 10. tölulið A-liðar tillögunnar er kveðið á um að við val á línuleið skuli forðast að raska, nema brýna nauðsyn beri til, friðlýstum svæðum og svæðum sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt ákvæðum laga um náttúruvernd. Nefndin telur að gera verði greinarmun á mismunandi svæðum sem njóta verndar sem er þegar kveðið á um í lögum. Um er að ræða friðlýst svæði samkvæmt lögum um náttúruvernd eða samkvæmt sérlögum. Þá má nefna svæði sem hafa hlotið skráningu á náttúruminjaskrá án þess að hafa verið friðlýst og auk þess svæði sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Nefndin leggur til breytingartillögu við 10. tölulið. Þessar ábendingar komu frá ýmsum umhverfisverndarsamtökum og við töldum þær mjög réttmætar og tókum tillit til þeirra.

Í 7. tölulið er m.a. kveðið á um að styrking og uppbygging flutningskerfisins skuli miða að því að auka afhendingaröryggi raforku á landsvísu með sérstakri áherslu á þau landsvæði sem búa við skert orkuöryggi. Fram kom við umfjöllun um málið að afhendingaröryggi væri mjög misjafnt eftir landshlutum, mest á höfuðborgarsvæðinu en minnst á landsbyggðinni sem tengist meginflutningskerfinu um byggðalínuhlutann. Ekki eru hins vegar skilgreind í tillögunni ákveðin markmið afhendingaröryggis samkvæmt þessum tölulið og leggur nefndin því til breytingartillögu í því skyni að gera viðmið skýrari. Annars vegar er lagt til að allir afhendingarstaðir verði árið 2030 komnir með tengingu sem tryggi að verði rof á stakri einingu valdi það ekki takmörkunum á afhendingu og hins vegar að árið 2040 verði allir afhendingarstaðir í svæðisbundnum hlutum komnir með tengingu sem tryggi hið sama. Nefndin bendir á að með einingu er ekki átt við spennistöð eða tein. Hér er enn ein breytingin sem við leggjum til, sem miðar að því að gera þessa stefnu markvissari þannig að hægt sé að fara að vinna eftir henni strax.

Samkvæmt tillögunni eru fyrirhugaðar tilteknar rannsóknir og greiningar, líkt og áður hefur verið vikið að, og kveðið á um að niðurstöður þeirra verði lagðar fram á Alþingi eigi síðar en 1. febrúar 2019. Þetta eru rannsóknir sem lúta m.a. að því að meta hagkvæmni jarðstrengja sem hefur verið nokkrum vafa undirorpið hvernig best sé að gera og margir talað um að ekki sé nógu skýrt þegar verið er að meta hvort eigi að leggja línur í jörð eða loftlínur, ekki liggi nægar rannsóknir þar að baki. Nefndin spurðist fyrir um og vildi hafa þessi tímamörk sem skýrust til að þær rannsóknir yrðu sem bestar en ekki bundnar af einhverri dagsetningu sem væri óraunhæf.

Nefndin telur ljóst að það sé of knappur tími til jafn umfangsmikilla rannsókna og því rétt að seinka þessu þannig að miðað verði við 1. október 2019. Einnig beinir nefndin því til ráðherra að í rannsóknum eða greiningum verði fundin leið til að meta líftímakostnað jafnt sem stofnkostnað. Ég vil árétta þetta atriði, það er gríðarlega mikilvægt þegar verið er að vega og meta hvort eigi að leggja í jörð eða ekki að þá sé líftímakostnaðurinn metinn en ekki bara stofnkostnaður. Samhliða þessu er gerð tillaga um dagsetningu í C-lið um hvenær þingsályktunin verði tekin til endurskoðunar. Raunhæft virðist að miða við að það verði í fyrsta lagi á haustþingi 2019, en í tillögunni er gert ráð fyrir að það verði á vorþingi. Við viljum sem sagt bíða eftir niðurstöðu þessara rannsókna á jarðstrengjum.

Í tillögugrein má finna hugtök sem bent var á að sum hver mætti skilgreina nánar. Sem dæmi má nefna hugtakið lykilsvæði, en í því samhengi bendir nefndin á bls. 52 í skýrslu ráðherra um raforkumál, 386. mál, þar sem er að finna kort sem veitir leiðbeiningar um hvernig skuli skilja það. Að öðru leyti beinir nefndin því til ráðherra að í þeirri endurskoðun sem er fyrirhuguð verði leitast við að hafa orðalag eins nákvæmt og skýrt og unnt er.

Nefndin telur mikilvægt að huga betur að öryggi flutningskerfis raforku þegar að náttúruhamförum kemur og leggur til að bætt verði við nýjum tölulið í A-lið sem taki á því og leggur því til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu, að við 3. tölulið af 15 í A-lið, sem verða 16 samkvæmt okkar tillögu, bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skulu Eyjafjarðarsvæði, Vestfirðir og Suðurnes vera sett í forgang.

Síðan leggjum við til breytingar við 7. tölulið, þar bætast þrír nýir málsliðir við sem lúta að því sem ég kom inn á áðan, að afhendingarstaðir í meginflutningskerfinu skulu árið 2030 vera komnir með tengingu sem tryggi að rof á stakri einingu valdi ekki takmörkunum o.s.frv. Þetta er mikið tæknimál sem ég ætla ekki að þreyta þingmenn á að þylja upp en hvet þá til að lesa í nefndarálitinu.

Í breytingartillögu okkar, 1.c, segir að 10. töluliður orðist svo: Við val á línuleið fyrir raflínur skal gæta að verndarákvæðum friðlýstra svæða samkvæmt lögum um náttúruvernd, svæða sem njóta verndar samkvæmt sérlögum og réttaráhrifum skráningar á náttúruminjaskrá samkvæmt 37. gr. laga um náttúruvernd. Forðast ber einnig að raska, nema brýna nauðsyn beri til, svæðum sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. laga um náttúruvernd.

Hér eru komnar þær ábendingar frá umhverfissamtökunum sem ég vék að áðan.

Svo leggjum við til að við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Mikilvægt er að tryggja raforkudreifingu og raforkuöryggi með tilliti til mögulegra náttúruhamfara.

Að lokum leggjum við til tvær breytingar er varða tímasetningu á þessum rannsóknum og endurskoðuninni eins og ég vék að.

Virðulegi forseti. Eins og ég kom að í upphafi ríkti mikil sátt um málið innan hv. atvinnuveganefndar og undir álitið skrifa auk mín Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður, Inga Sæland, Halla Signý Kristjánsdóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ásmundur Friðriksson, Njáll Trausti Friðbertsson, Sigurður Páll Jónsson og Sara Elísa Þórðardóttir.