148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

skipulag haf- og strandsvæða.

425. mál
[22:11]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég get ekki látið hjá líða að koma upp og ræða þetta mál enda líklega einn af fáum þingmönnum sem hafa komist nálægt því að taka þátt í gerð skipulags strandsvæðis. Ég tók þátt í gerð svokallaðrar nýtingaráætlunar strandsvæðis Arnarfjarðar 2012–2024 en reynslan af því verkefni sannaði svo um munaði mikilvægi þess að vinna þyrfti lög um strandsvæðisskipulag. Það er því sérstaklega gleðilegt fyrir mig að fá að taka þátt í umfjöllun um þetta mál.

Eins og fram kom í máli hv. framsögumanns, Líneikar Önnu Sævarsdóttur, er hér verið að leggja til heildstæða löggjöf um skipulag á haf- og strandsvæðum, nokkuð sem sveitarfélögin, sérstaklega á Vestfjörðum og Austfjörðum, hafa lengi kallað eftir. Í 1. umr. um málið kom ég inn á nokkra þætti sem ég taldi að mættu fara betur, svo sem skipan fulltrúa svæðisráðs og sömuleiðis að nokkuð sérstakt væri að fulltrúi umhverfisverndarsamtaka ætti áheyrnaraðild að svæðisráði á meðan fulltrúar annarra, svo sem allra aðliggjandi sveitarfélaga og annarra hagsmunasamtaka, ættu það ekki.

Ég tel að með þeim breytingartillögum sem hér eru lagðar til frá hv. umhverfis- og samgöngunefnd sé málið fært til betra horfs og betra jafnvægi skapað en gert var í frumvarpinu. Sérstaklega er heppileg breytingin um skipan svæðisráðsins þar sem aukið jafnvægi er á milli sveitarfélaga og ríkis.

Þó að ég viti að margir telji of langt gengið með tillögu um svokallaða samráðshópa tel ég að þar sé komin fram sæmileg málamiðlun um aðkomu hagsmunaaðila. Ég fagna því.

Það er að mínu mati mjög mikilvægt að hafist verði handa sem allra fyrst við gerð strandsvæðisskipulaga fyrir Vestfirði og Austfirði enda mörg mikilvæg úrlausnarefni sem þar liggja fyrir. Þannig er sömuleiðis mikilvægt að einhver reynsla verði komin á lögin áður en þau verða endurskoðuð eins og lagt er til í áliti nefndarinnar og breytingartillögum um endurskoðun í ljósi reynslunnar, nokkuð sem ég held sömuleiðis að verði mjög gagnlegt.