148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

skipulag haf- og strandsvæða.

425. mál
[22:14]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Hér er lagt fram mikilvægt frumvarp um skipulag haf- og strandsvæða. Það er eins og vitað er byggt á svokölluðu landsskipulagi, a.m.k. að hluta til. Þar er verið að koma gildum böndum á skipulag til sjávar utan netlaga, eða 115 m frá landi, rétt eins og unnið hefur verið að lausn skipulagsmála á landi, þó með ólíku sniði sé.

Mig langar að halda til haga tvennu sem er mikilvægt í þessum lögum. Í fyrsta lagi að sjávarsvæðin utan netlaga eru í raun skilgreind sem hafalmenningur, hugtak sem fáir hafa heyrt. Það er svæði sem er ekki á forræði sveitarfélaga heldur ríkisins í nafni samfélagsins alls. Þetta er haft þannig, að því er rök herma, vegna sérstöðu auðlinda sjávarins utan netlaga en þar innan við er skipulag í höndum sveitarfélaga eins og allir vita. Í öðru lagi, og þar er einmitt stórt „en“, gera lögin nefnilega ráð fyrir sterkri innkomu sveitarfélaga sem liggja að ströndum. Það gerist með þeim hætti að aukinn meiri hluta þarf í átta manna svæðisráði. Það er skipað þannig að þar er til jafns fjöldi sveitarstjórnarmanna, getum við sagt; þrír frá aðliggjandi sveitarfélögum og einn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og svo jafnmörgum fulltrúum ríkisins. Þetta er átta manna ráð og það þarf aukinn meiri hluta, 60%, til samþykkis í hverju máli.

Frú forseti. Það mætti tína fleira til sem til gagns gæti orðið eftir lagasetninguna en í meginefnum er um að ræða sátt sem náðist í hæstv. umhverfis- og samgöngunefnd á grundvelli gagnrýni og athugasemda margra umsagnaraðila fyrir nefndinni. Ekki er gengið svo langt að fela svæðisfélögunum allt skipulagsvald innan fjarða og flóa landsins eða fyrir suðurströndinni eins og kom fram fyrr í máli mínu. Í lögunum, og það er mikilvægt, er endurskoðunarákvæði. Það er hið besta mál og verður eflaust virkt þegar þar að kemur.

Ég vil, sem 2. varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar, þakka öllum fulltrúum stjórnarandstöðu og stjórnar fyrir ötula þátttöku í því að lenda einu samhljóða áliti og koma þessum skipulagslögum til framkvæmda með því að hefja skipulagsvinnu á Vestfjörðum og Austfjörðum. Þá sjáum við hvernig þessu vindur fram og lítum með opnum huga til breytinga á lögunum, gerist þess raunverulega þörf. Hér er um mikilvægt frumvarp að ræða og það er mjög mikilvægt að það skuli hafa verið afgreitt héðan frá hinu háa Alþingi á þessu þingi.