149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við fáum góðan tíma til að ræða þjóðarsjóðinn og lög um hann þegar frumvarp um hann kemur fram en ég fagna því samt sem áður að fá hér tækifæri til að ræða þetta stuttlega.

Stóra myndin er þessi: Skuldastaða ríkissjóðs er að verða sjálfbær og ekki mikið áhyggjuefni þó að við ætlum áfram að lækka skuldirnar. Við höfum náð utan um lífeyrisskuldbindingarnar í A-deildinni. Við erum með plan um það hvernig við ætlum að fást við lífeyrisskuldbindingar í B-deildinni. Þannig að fyrir utan skuldastöðuna og aðrar skuldbindingar ríkissjóðs þá erum við með trúverðuga áætlun um hvernig við ætlum að takast á við þetta.

Við ræðum hér í dag um það að útgjaldastig ríkisins sé þokkalega hátt. Sumum finnst það of hátt og við ættum frekar að fara í endurmat útgjalda en að bæta í. Þegar þessar aðstæður eru uppi horfir til þess í fyrsta skipti í sögu Landsvirkjunar að ríkissjóður fari að fá miklar arðgreiðslur, mun meiri en nokkru sinni fyrr. Það er ekkert mjög langt síðan menn höfðu hreinlega áhyggjur af fjárhagsstöðu Landsvirkjunar en fyrirtækið hefur greitt mikið upp af skuldum og hefur verið að byggja nýjar virkjanir og bæta við í viðskiptamannaflóruna, þannig að á næstu árum horfum við til þess að það verði verulegur vöxtur í arðgreiðslum frá Landsvirkjun. Hugmyndin um þjóðarsjóð er þess vegna í mínum huga ekki mikil skipulagsbreyting, eiginleg, heldur miklu meira til vitnis um að við erum að koma að miklum tímamótum þar sem við erum að fá uppskeru eftir að hafa sáð þessum fræjum með orkuvinnslu í landinu. Nú sé komið að því að svara spurningunni um það hvort við ætlum að láta arðgreiðslurnar renna í gegnum ríkissjóð til hefðbundinna verkefna í ríkisfjármálum eða hvort það er skynsamlegt að taka þessa fjármuni til hliðar, sem geta, já, ef spár ganga eftir, og ekkert óvænt gerist, ég set auðvitað alla fyrirvara á það eins og menn eiga að gera, þá geta hér verið undir tugir milljarða og á tiltölulega fáum árum eða innan við tveimur áratugum jafnvel 200 milljarðar. Það er mín skoðun að það sé skynsamlegt (Forseti hringir.) að setja þetta í hlöðurnar og hafa til ráðstöfunar til að auka styrk ríkisfjármálanna, traust á kerfinu og vera undirbúin ef einhver áföll verða í framtíðinni.