149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir andsvarið. Það gætir nú svolítils misskilnings að mínu mati í því sem hann sagði hér. Það er alveg rétt, ég hef lagt áherslu á ráðdeildarsemi og tel hana afar mikilvæga í fjármálum. Það eru þessir óvissuþættir sem talað er um og koma fram í frumvarpinu sem mér finnst ekki vera horft nægilega til og eins og ég nefndi er þetta ágætiskafli en stuttur þar sem er farið yfir þessa óvissuþætti.

Það sem ég hefði viljað sjá er að dregið hefði verið úr ríkisútgjöldum til ýmissa stofnana á vegum ríkisins. Við getum nefnt hækkanir eins og í norðurslóðasamstarfi, þar er hækkun um 50 milljónir. Aðalskrifstofa utanríkisráðuneytisins, hækkun um 130 milljónir. Ég veit að við erum að fara að taka við formennsku á þessum vettvangi, en ég spyr: Er ekki hægt að gera þetta með ódýrari hætti, nota þá starfsmenn sem eru í ráðuneytinu eða jafnvel þá sem eru sendiherrar, komnir heim og að komast á eftirlaun o.s.frv.? Ég tel að það sé hægt að spara víða. Stjórnarráðið, við sjáum hækkun þar um 200 milljónir. Rammaáætlun ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun, 800 millj. kr. hækkun. Það liggur ekki fyrir hvað við Íslendingar erum að fá út úr þeim sjóði sem dæmi.

Það er víða í ríkisrekstrinum sem ég tel að sé hægt að hagræða. Var það skoðað að sameina ríkisstofnanir o.s.frv.? Þetta finnst mér vera mikið atriði og að það sé lagt til hliðar til mögru áranna. Afgangurinn af ríkisfjármálum mætti vera hærri og meiri í ljósi þessa (Forseti hringir.) góðæris sem við búum við. Það er víða hægt að hagræða með skynsamlegum hætti að mínu mati.