149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu, námsefni á íslensku. Eins og fram hefur komið erum við í mikilli vegferð og mikilli stefnumótun varðandi það að efla íslenskt mál. Sú þingsályktunartillaga sem ég hef boðað er í 22 liðum og tíu liðir ná til menntunar og hvernig við aukum aðgengi og styðjum við íslenskuna. Eins og fram hefur komið finnst mér svolítið brýnt að við jafnvel fjölgum tímum í íslensku og færum okkur þá nær Norðurlöndunum, hvernig þeir nálgast þetta.

Þetta kemur líka svolítið inn á stöðu ungra drengja. Eitt af því sem kemur fram er að þeir standa oft ekki jafnfætis stúlkum á svipuðum aldri í lesskilningi. Ég legg mikla áherslu á það í allri stefnumótun að við leggjum mikla rækt við lesskilning vegna þess að ég tel að hann sé lykillinn að góðum lífsgæðum, sama hvað maður tekur sér fyrir hendur. Sá sem er með góðan lesskilning er líklegri til þess að fóta sig í tilverunni. Eitt af því sem við erum auðvitað að horfa fram á og er liður líka í þessari áætlun um að efla íslenskt mál er að styðja við bækur, styðja við íslenska bókaútgáfu og hafa fjölbreytt efni.

Annað sem ég vil nefna er að við erum að setja á laggirnar sérstakan sjóð fyrir barna- og unglingabækur vegna þess að það hefur skort. Það getur fælt drengi frá því að lesa ef þeir eru ekki með bækur á íslensku. Við viljum bæta sérstaklega úr því.