149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:42]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra verður mjög fljótur að jafna sig eftir óvænta fyrirsát mína í ræðustól Alþingis.

Mig langar helst að ítreka spurningu mína um kostnað við skýrslugerðina sem Björn Bjarnason mun stýra.

Mig langar að taka upp annan þráð og það er aðgerð nr. 13 sem er ætlað að styðja við markmið nr. 5 í kaflanum um utanríkismál þar sem segir að aðgerðin eigi að tryggja hagsmuni Íslands í samningaviðræðum sem fara fram vegna útgöngu Bretlands úr ESB í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar.

Ég átta mig ekki alveg á því hvaða samningar þetta eru, hvort þetta eru samningarnir milli Evrópusambandsins og Bretlands eða samningar Íslands við Breta sem við er átt, og væri ágætt að fá útskýringar á því. Svo tók ég eftir því að í þingmálaskránni er gert ráð fyrir frumvarpi um samninga sem á að leggja fram í nóvember. Ég held að enn sé dálítill vegur í land hjá Bretum og Evrópusambandinu að ná saman þannig að ég átta mig ekki alveg á þeim tímaramma, en hvað um það. Eru þetta raunverulegir samningar um efnisatriði eða gengur frumvarpið út á tæknilega lúkningu af því að það fækkar um eitt ríki í Evrópusambandinu o.s.frv.? Það væri ágætt að fá útskýringar á því og þá líka, af því að við erum að tala um fjárlögin, hvaða kostnaður fylgir því ef einhver.