149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga í tannréttingum.

[15:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þekki ekki sögu breytinganna á þessari reglugerð sem hv. þingmaður spyr um en mér er það bæði ljúft og skylt að greina honum frá því með öðrum hætti, annaðhvort með tölvupósti eða öðruvísi, ef hann óskar sérstaklega eftir því að fá upplýsingar um sögu þessara breytinga og forsendur fyrir þeirri ákvörðun á hverjum tíma. En ég held að aðalmálið sé það og hef ekki fundið neinn andmæla því í raun og veru, hvorki í pólitíkinni né annars staðar, að þarna er einfaldlega um að ræða stöðu sem ég held að hafi hvorki verið markmið löggjafans á neinum tímapunkti eða ég tala nú ekki um þess sem hefur undirritað reglugerðina á einhverjum öðrum punkti, að setja þessa foreldra og þessi börn í svona ójafna stöðu. Ég vil því enn þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja þessarar spurningar og gefa mér tækifæri til þess að lýsa þessum vilja mínum skýrt hér í ræðustól Alþingis.