149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[19:04]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aftur að þessu með kaupanda versus seljanda. Í heilbrigðisþjónustu gerir ríkið stóra samninga um kaup á þjónustu en hv. þingmaður veit jafn vel og ég að ákvörðunin um hver fær þjónustuna liggur ekki hjá ríkinu. Hún liggur ekki þar. Hún liggur hjá seljandanum. (Gripið fram í.) Seljandinn er í þessu tilfelli, þ.e. sá sem veitir þjónustuna, heilbrigðisstarfsmaðurinn, alltaf í yfirburðastöðu gagnvart kaupandanum, þegar kemur að þessum þjónustukaupum. Það er ekki þannig að menn kaupi heilbrigðisþjónustu eins og þeir væru að kaupa sér húsgögn eða bíl eða eitthvað þess háttar, menn kaupa slíka þjónustu af nauðsyn. Menn fá þessa þjónustu af nauðsyn. Þeir kaupa hana af einhverjum aðila af nauðsyn. Þess vegna er grundvallarmunur þarna á og sá er í raun grundvallarmunurinn.

Þingmaðurinn spyr af hverju menn megi hagnast á því að byggja byggingar fyrir ríkið sem jafnvel eigi að nota undir heilbrigðisþjónustu en ekki megi hagnast af því að veita þá þjónustu sem þar er í boði. Það er einmitt út af þeim markaðsbresti sem er, held ég, viðurkenndur í öllum helstu fræðiritum um heilbrigðisþjónustu, þ.e. að sambandið á milli kaupandans og seljandans er svo sérstakt að ástæða er til að tryggja að þar á milli ráði önnur sjónarmið en hagnaðarsjónarmið.