149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[11:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að setja þetta mál í farveg og fyrir ágætisræðu reyndar líka. Það gengur auðvitað ekki að meiri hluti landsmanna beri ekki traust til stjórnmálamanna og Alþingis. Það mælist t.d. miklu minna en annars staðar á Norðurlöndunum. Það er þannig með traustið að það er tiltölulega fljótlegt að glata því en mjög erfitt að byggja það upp.

Settar eru fram mjög góðar tillögur í þessari skýrslu og Samfylkingin mun að sjálfsögðu styðja við áframhaldandi vinnu á grundvelli þeirra. Skýrari siðareglur. Umgjörð um samskipti við hagsmunaaðila. Betri upplýsingagjöf, meira samráð og gagnsæi, það er allt sem við ættum að geta gert mun betur. Ég held að þær breytingar sem starfshópurinn leggur til í skýrslunni komi ekki einungis almenningi til góða, heldur verði þær á endanum góðar fyrir okkur í stjórnmálum. Við fáum skýrari ramma og viðmið til að styðjast við.

En það er þó ýmislegt sem við getum gert strax sem krefst hvorki skýrslugerðar né tímasettra áætlana. Ég held að við verðum bara að ræða það, m.a. þurfum við að vera skýrari og samkvæmari sjálfum okkur.

Í fyrsta lagi er ekki trúverðugt að lofa þjóðinni aðkomu að málum í þjóðaratkvæðagreiðslu og svíkja það síðan. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ekki heldur að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og sýna enga tilburði til þess að fara eftir henni.

Í öðru lagi finnst mér vera umhugsunarefni að nágrannar okkar á Norðurlöndunum virðast vera sáttari við skatt sem þeir borga af launum sínum en Íslendingar þrátt fyrir að skatturinn þar sé síst lægri. Líklega finnst þeim dreifingin vera réttlátari. Þeir hafa tilfinningu fyrir því að aurunum sé varið í hluti sem skipta máli og gagnast þeim og kannski sjá þeir betur í hvað peningarnir fara.

Í þriðja lagi verður að nefna að samtvinnun viðskiptalífs og stjórnmála má ekki vera með þeim hætti að það sé einhverjum vafa undirorpið að stjórnmálamenn sinni almannahagsmunum í störfum sínum en ekki sérhagsmunum.

Í fjórða lagi held ég að almenningur á Íslandi sitji stundum uppi með þá hugmynd að þátttaka í þingkosningunum sé svipað og að taka þátt í lotteríi. Í tæpa tvo mánuði fyrir kosningar rignir t.d. loforðum frá okkur til kjósenda. Hugmyndafræðin er útskýrð og mikilvægi þess að halda prinsipp. Nú geri ég ekki lítið úr því að fjölflokkakerfið er flókið og að allir þurfi að slá af sínum ýtrustu kröfum ef þeim á að auðnast að setjast í ríkisstjórn. En fyrr má nú vera, herra forseti.

Flokkur sem skilgreinir sig lengst til vinstri í stjórnmálum getur fundið upp á því að mynda stjórn með flokki sem er yst á hægri ásnum. Til dæmis vildu aðeins 3% kjósenda Vinstri grænna sjá flokkinn í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og 12% með Framsóknarflokknum. En það varð engu að síður veruleikinn rúmum mánuði eftir kosningar. Ég held því ekki fram að þetta sé í eina skiptið sem það hefur gerst og heldur ekki að minn flokkur sé undanskilinn þeirri gagnrýni. En þetta er hins vegar ekki til þess fallið að efla traust, herra forseti.

Í fimmta lagi sýna rannsóknir að sterk tengsl eru á milli trausts og ábyrgðar. Hér á Íslandi hafa meira að segja stjórnmálamenn haldið því fram að það sé engin ástæða til þess að ráðherrar segi af sér þó að þeir verði uppvísir að alvarlegum lögbrotum, einfaldlega vegna þess að það sé ekki hefð fyrir því. En á endanum er það einmitt getan til að rjúfa vondar hefðir, brjóta upp slæmt mynstur, jafnvel þó að það kunni að reynast erfitt, sem getur verið nauðsynleg til þess að endurvinna traust.

Þess vegna er það tillaga Samfylkingarinnar að við höldum vinnudag allra þingmanna og ráðherra þar sem við ræðum traust og siðferði með sams konar fyrirkomulagi og við gerðum þar sem við ræddum í byrjun árs málefni er varðaði #metoo. Ég held að við ættum að setja það strax á dagskrá.