149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

þinglýsingalög o.fl.

68. mál
[13:32]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á þinglýsingalögum, lögum um rafræn viðskipti og lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Með frumvarpinu er lagt til að heimilað verði að þinglýsa réttindum með rafrænni færslu samhliða venjubundinni færslu skjals í þinglýsingabók.

Í langan tíma hefur verið horft til þess að koma þinglýsingum yfir í rafrænt form þannig að unnt sé að nýta þá tækni sem við búum yfir í dag og gera framkvæmdina sjálfvirka. Í dag fer þinglýsing þannig fram að skjöl eru send til viðeigandi sýslumannsembætta þar sem þau eru yfirfarin og meginatriði þeirra skráð handvirkt í þinglýsingarkerfið af skrifstofumanni. Í kjölfarið eru skjölin afhent þinglýsingarstjóra sem fer yfir skjölin og skráninguna í kerfið. Standist skjalið könnun þinglýsingarstjóra er stöðu skjalsins breytt úr „dagbókarfært“, eins og það er fyrst skráð, í „þinglýst“, frumritið er síðan endursent þinglýsingarbeiðanda og samrit varðveitt hjá embættinu. Þessi ferill er að hluta til rafrænn þar sem þinglýsingabókin er á rafrænu formi en verklagið býður hins vegar ekki upp á sjálfsafgreiðslu þinglýsingarbeiðanda eins og stefnt er að með þessu frumvarpi.

Í frumvarpinu er sem sagt lagður grunnur að því að unnt verði að auka sjálfvirkni þinglýsingarkerfisins með því að heimila fjármálastofnunum og öðrum þeim sem útbúa veðskjöl að skrá réttindi samkvæmt skjalinu rafrænt í þinglýsingarkerfið. Skjal verður þannig hvorki sent sýslumannsembætti til afgreiðslu né verður afrit eða samrit þess varðveitt af þinglýsingarstjóra. Í stað þess verða helstu atriði skjals skráð í kerfið í gegnum sérstaka þjónustugátt og þannig sent til þinglýsingar. Kerfið fer svo sjálfvirkt yfir þau atriði sem skráð eru og kannar þannig hvort lagaskilyrðum sé fullnægt fyrir þinglýsingunni. Standist skráningin könnun tölvukerfisins fer þinglýsingin fram með sjálfvirkum hætti án nokkurrar tafar eða aðkomu þinglýsingarstjóra. Uppfylli færslan hins vegar ekki skilyrði þinglýsingar verður hún sjálfkrafa annaðhvort send þinglýsingarbeiðanda eða send til handvirkrar meðferðar þinglýsingarstjóra. Ég vek athygli á því að um er að ræða heimild til þinglýsingar með rafrænni færslu en ekki skyldu og þannig verður áfram, a.m.k. til að byrja með, jafnframt heimilt að þinglýsa skjölum með hefðbundnum hætti, þeim hætti sem tíðkast í dag. Með þessu frumvarpi er ekki verið að breyta umdæmismörkum þinglýsinga eða gildandi framkvæmd að öðru leyti og þess vegna verða sýslumenn áfram þinglýsingarstjórar, hver í sínu umdæmi, hvort sem um er að ræða þinglýsingu á skjali eða með rafrænni færslu.

Lagt er upp með að þinglýsing með rafrænni færslu verði fyrst um sinn takmörkuð við ákveðnar tegundir skjala, t.d. veðskjöl auk annarra tengdra skjalategunda, svo sem skilmálabreytinga, veðbandslausna, veðflutninga og veðleyfa. Í reglugerð verður skilgreint nánar hvaða skjölum megi þinglýsa með rafrænni færslu og eftir því sem reynslan kemst á hið rafræna ferli verður unnt að fjölga þeim tegundum skjala án þess að frekari lagabreytingar þurfi til. Í slíkri reglugerð yrði jafnframt gerð grein fyrir þeim upplýsingum sem krafist verður skráningar á við þinglýsingu rafrænnar færslu og ferilinn að öðru leyti. Gert er ráð fyrir að beiðni um þinglýsingu verði send þinglýsingarstjóra rafrænt í gegnum vefþjónustu sem þinglýsingarbeiðendur tengjast.

Með frumvarpinu eru jafnframt lagðar til verulegar breytingar á forgangsáhrifum þinglýsinga. Til að stuðla að sjálfvirkri þinglýsingu og ná fram því markmiði að rafrænar þinglýsingar gangi hratt fyrir sig er talið nauðsynlegt að forgangsáhrifin miðist við tímastimplun þegar rafræn þinglýsingarfærsla berst til þinglýsingar en ekki afhendingardag eins og er í dag. Í tæknilegri útfærslu verður tryggt að rafræn þinglýsingarfærsla fái einkvæma tímastimplun og því verður ekki mögulegt að tvær eða fleiri færslur fái sama tímastimpil. Þá er jafnframt lagt til að forgangsáhrif hefðbundinnar þinglýsingar miðist við tímastimplunina kl. 21 þann dag sem skjalið er afhent og þannig hafi rafrænar þinglýsingar forgang á hefðbundnar þinglýsingar á pappírsskjölum. Að auki verður forgangur aðfarargerða og kyrrsetningargerða gagnvart öðrum skjölum afnuminn með frumvarpinu.

Virðulegur forseti. Grundvöllur þess að þinglýsing með rafrænum hætti geti átt sér stað er að eigandi kröfu samkvæmt þinglýstu veðskjali sé rétt skráður í þinglýsingabók. Að öðrum kosti getur hann ekki gert breytingar á kröfuréttindum með þinglýsingu með rafrænni færslu, svo sem vegna veðflutnings eða skilmálabreytinga. Áður en heimilað er að þinglýsa með rafrænni færslu er þess vegna nauðsynlegt að ganga úr skugga um að réttur kröfuhafi sé skráður í þinglýsingabók enda mæli þá gildandi lög ekki fyrir um skyldu til að þinglýsa framsali veðbréfs. Af þessari ástæðu þarf þá eftir atvikum að leiðrétta skráninguna ef annar en rétthafi bréfsins er þar skráður. Til að bregðast við þessu er lagt til í því frumvarpi sem ég mæli hér fyrir að fram fari leiðrétting á skráningu kröfuhafa í þinglýsingabók og stefnt að því að þeirri leiðréttingu verði lokið ári eftir gildistöku laganna, þ.e. 1. mars 2020. Ekki er gert ráð fyrir að kröfuhafar þurfi að greiða sérstakt gjald vegna þessa og er því lögð til breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

Virðulegur forseti. Með innleiðingu rafrænna þinglýsinga er stigið mjög mikilvægt skref í uppbyggingu innviða samfélagsins og upptöku stafrænnar tækni í stjórnsýslu og viðskiptum. Ég bind vonir við það að aukin sjálfvirkni hafi í för með sér hagræði fyrir alla þá sem koma að þinglýsingum og byggja rétt sinn á þinglýsingum, hvort sem það eru embætti sýslumanna, kröfuhafar eða aðrir.

Ég legg því hér með til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.