149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

almannatryggingar.

54. mál
[16:51]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum krónu á móti krónu skerðingar. Ég styð frumvarpið heils hugar og er einn af flutningsmönnum þess. Við erum að tala um málefni sem er eitt það mesta óréttlæti sem maður hefur séð í íslenskum lögum, óréttlæti sem er svo ótrúlegt að maður fær á tilfinninguna, þegar maður fer að grúska í kjarnann á þessu, að þarna sé hreinlega verið að plata veikt og illa slasað fólk, öryrkja upp til hópa.

Við skulum aðeins skreppa í smásöguskoðun, hvenær voru þessi lög sett á, króna á móti krónu skerðing? (Gripið fram í: Ólög.) — Ólög. Hvenær? Jú, það var 21. desember 2009. Þá varð þetta að lögum. Þetta var í tíð svokallaðrar vinstri stjórnar. (Gripið fram í: Velferðarstjórnar.) Velferðarstjórnarinnar. Og í atkvæðagreiðslu sögðu 19 já og 14 nei. Því miður, verð ég að segja, eru enn einstaklingar á þingi sem samþykktu þessa gjörð. Ég veit það og trúi ekki öðru en að þeir einstaklingar sem komu þessum lögum á muni sjá til þess að þau verði tekin af. Þar á meðal er Ásmundur Einar Daðason, sem er núverandi velferðarráðherra. Og forseti Alþingis, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

Þeir sem sögðu nei, þessir 14, sögðu ekki nei við krónu á móti krónu skerðingu, hún var ekki nefnd á nafn í sérálitum sem allir geta fundið á netinu. Ég er búinn að fara í gegnum þau sérálit og fann ekki ein einustu mótmæli — hjá þeim sem sögðu nei — gegn krónu á móti krónu skerðingu. Mér var bent á það, í umræðu um skattamál sem ég átti við hæstv. fjármálaráðherra, hver hefði komið þessu á, hverjir hefðu verið með og hverjir á móti. Ég sé ekki að þeir sem voru á móti hafi gert sér grein fyrir því á þeirri stundu hvað verið var að búa til.

Ef við kíkjum á frumvarpið, sem lagt var fram 2009, var 12. gr., sem fjallaði um 9. gr. laganna, orðuð svo, með leyfi forseta:

„Heimilt er að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án uppbótar skal taka tillit til eigna og tekna.

Heimilt er að greiða lífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skal miða við að heildartekjur séu undir 180.000 kr. á mánuði. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem ekki fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skal miða við að heildartekjur séu undir 153.500 kr. á mánuði.

Til tekna samkvæmt ákvæði þessu teljast allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki eru taldar fram hér á landi. Tryggingastofnun ríkisins metur þörf samkvæmt ákvæði þessu. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um tekju- og eignamörk.“

Takið eftir því, tekju- og eignamörk. Þeir sem áttu að fá þetta máttu ekki eiga eignir. Ef einhver af þessum einstaklingum sem voru á þessum ótrúlega lágu bótum á þessum tíma, voru í sárafátækt, áttu einhverjar eignir þá yrði það skert. Og þau máttu ekki, ég ítreka það, sem hlýtur að vera eitt það stórfurðulegasta í íslenskri sögu, eiga eignir í banka og ekki fá bætur út af eignum sem þeir áttu í banka. Það sem var enn furðulegra í þessu var aldurstengda örorkan sem átti að bæta það upp ef öryrkjar voru ungir — nei, ekki, það var skert.

Það hlýtur að sæta undrun ef við förum að skoða nákvæmlega ofan í þau mörk sem þarna voru sett. Hvað erum við að tala um í dag? Hvað gerir króna á móti krónu skerðingin í dag? Jú, þeir sem fá hæstu sérstöku uppbótina, sem skerðist þarna, þar nemur það rúmum 60 þús. kr. Eldri borgarar fengu þetta leiðrétt 2017. Ef við horfum fram til dagsins í dag, hvað er búið að taka af þeim sem fengu þessa sérstöku uppbót, hæstu uppbótina? Við skulum átta okkur á því að þeir sem fá þessa hæstu uppbót eru þeir sem eru verst settir, einstaklingar í hjólastól sem geta varla björg sér veitt. Þá erum við að tala um að frá 1. janúar 2017 til dagsins í dag er búið að hafa af þessu fólki 1.360 þús. kr. að lágmarki. Okkur ber skylda til að sjá til þess að þetta verði borgað afturvirkt. Því það er búið að borga öllum allar leiðréttingar á launum og öðru afturvirkt. En eldri borgarar og öryrkjar? Nei.

Og hver eru rökin? Hver eru rök fjármálaráðherra í hvert einasta skipti sem þetta málefni er tekið fyrir? Það eru takmarkaðar tekjur, það eru ekki til tekjur.

Það sem er furðulegast í þessu er að það er alveg sama hvaða mál það er ég hef engan heyrt segja: Við ætlum ekki að dæla peningum í Vaðlaheiðargöng af því að það eru takmarkaðar tekjur. Við ætlum ekki að fara helmingi fram úr kostnaði við Þingvallafundinn vegna þess að tekjur eru takmarkaðar. Ég segi bara: Guð hjálpi okkur, það mun enginn tala um takmarkaðar tekjur þegar sjúkrahótelið fer langt fram úr áætlunum. Ég segi bara: Guð hjálpi okkur þegar spítalinn fer að rísa við Hringbraut sem á að kosta tvöfalt miðað við það sem er venjulegt og þá er það tvisvar sinnum tvöfalt. Þá mun enginn segja: Það eru takmarkaðar tekjur. Nei. Bara þegar um er að ræða óréttlæti gagnvart öryrkjum.

Það hlýtur að segja sig sjálft, ef við horfum á það, sem sýnir hversu arfavitlaust þetta er, að ríkisstjórnin samþykkti líka lög um að hjálpa fólki sem ber mikinn kostnað vegna lyfja. Bílastyrkur vegna fötlunar, súrefnisgrímur, alls konar aðstoð — fólk fær styrki til að kaupa þetta. En enn í dag eru þessir styrkir skattaðir. Hvað þýðir það? Jú, ef þú færð 15 þús. kr. í styrk fyrir lyfjum eru 15 þús. kr. teknar af þér krónu á móti krónu. En svo gleymist það að af þessum styrk er tekinn skattur. Þannig að þetta er ekki 100% skattur heldur vel yfir það.

Ég segi fyrir mitt leyti: Þarna er verið að plata fólk, plata veikt fólk og hafa það hreinlega að fífli í boði ríkisstjórna undanfarinna ára sem hafa látið þetta óáreitt. Ég segi fyrir mitt leyti: Ég ætla bara að vona heitt og innilega að þeir sem komu þessu á og þeir sem eru búnir að viðhalda þessu og eru enn hér á þingi komi loksins til með að skammast sín og sjái til þess í eitt skipti fyrir öll að þessi króna á móti krónu skerðing hverfi. Það þýðir ekki að segja við öryrkja: Þið verðið að bíða eftir að samráðshópur um endurskoðun almannatrygginga gangi frá þessu. Það er alveg vitað mál að niðurstaðan úr þeim hópi kemur aldrei fyrr en í fyrsta lagi 2020. Þess vegna er það krafan nú um áramót að hætt verði að skatta lyfjastyrki og alla styrki eins og búið var að lofa og allir eru búnir að skrifa upp á — allir flokkar, síðastliðið vor. Og einnig á að sjá til þess að króna á móti krónu skerðing verði afnumin.

Þetta hljóta að teljast sjálfsögð mannréttindi. Hvernig ætlum við að réttlæta þetta? Ef einhver myndi segja að það væri réttlæti í þessu myndi ég taka sem dæmi að ég fæ bílastyrk í boði þingsins. Ég fæ bílastyrk en hann er ekki skertur króna á móti krónu. Alveg sama hvaða tekjur ég fæ annars staðar. En öryrkjar? Það er ekki nóg að skert sé króna á móti krónu heldur síðan skattað líka. Það er með ólíkindum að það skuli vera hægt að búa til svona lög . Ég er sannfærður um að þau lög sem eru í gildi núna standast ekki mannréttindi.

Látum það vera. En þá er það stjórnarskráin. Hvar í ósköpunum stendur það í stjórnarskrá Íslands að það sé leyfilegt að setja þannig lög á að verið sé að plata illa veikt fólk og slasað?

Við höfum vitað um þetta síðan 2009, í tíu ár. Og við höfum látið þetta viðgangast. Allan þennan tíma. Ekkert hefur verið gert í þessu, alltaf einhverjar afsakanir. Meira að segja afsakanir í tvö ár af því að Öryrkjabandalagið ákvað að kyngja ekki starfsgetumati. Þá mátti bara refsa öllum öryrkjum áfram, bara halda áfram að skerða krónu á móti krónu af því að þeir neituðu að fara í starfsgetumat. Við ættum að horfa á myndina I, Daniel Blake sem sýndi nákvæmlega hvernig starfsgetumat getur farið algerlega út úr öllu korti. Þess vegna eigum við að vanda okkur við það og einbeita okkur að því að koma starfsgetumatinu á en líka að sjá að króna á móti krónu skerðingin skiptir engu máli í því samhengi. Það er ekkert samasemmerki þarna á milli, ekki neitt.

Það er annað í þessu sem er líka erfitt að átta sig á og tala um. Ég er á þeirri skoðun að þessi króna á móti krónu skerðing sé í sumum tilfellum þannig uppsett, eins og hefur verið sýnt fram á hér, bæði hvað varðar aldurstengda örorku og alls konar styrki, að þeir sem eru virkilega veikir — virkilega veikt fólk, sem fær þessa sérstöku uppbót — geta ekki varið sig. Það áttar sig ekki á því. Þetta er oft fólk sem botnar ekki í því að tekjurnar aukist hjá því, ekkert hefur breyst, en það fær samt skerðingu ári seinna. Vegna þess að króna á móti krónu skerðingin tikkar inn. Hún kemur ekki fram fyrr en ári seinna. Hún er ekkert inni frá mánuði til mánaðar. Nema þegar greiðslunum er dreift í heilt ár, ári seinna.

Við verðum að átta okkur á því að þetta er óásættanlegt. Það er ekki hægt að segja við þetta fólk: Þið eigið bara að vita betur, bara að búa til fjárhagsáætlun og ganga frá því þannig að þetta virki. Það er gersamlega ósanngjarnt vegna þess að ekki er nokkur möguleiki á að þetta fólk geti reiknað þetta út eða áttað sig á þessu. Það trúir því af einlægni að verið sé að rétta því styrk til að hjálpa því. Hvernig í ósköpunum á það að trúa því að sá styrkur sé baneitraður? Baneitraður að því leyti að hann skerðir tekjur þeirra, ekki bara 100% heldur yfir 100%.

Ég segi fyrir mitt leyti: Það hlýtur að vera kominn tími til að við hér á þingi, löggjafinn, sýnum veiku og slösuðu fólki þá virðingu, þá einföldu virðingu, að koma fram við það eins og mannverur en ekki eins og þriðja, fjórða eða fimmta flokks borgara sem má traðka á en draga síðan fram öll loforðin þegar kosningar eru, dusta af þeim rykið og segja: Já, króna á móti krónu skerðingin? Allir flokkar lofuðu þessu fyrir síðustu kosningar. Allir. En hverjir hafa staðið við það? Ríkisstjórnin? Nei. Þess vegna segi ég: Nú er tími til að standa við loforðin.